Rúmur mánuður, 5 leikir og sveiflukennt gengi. Það er kominn tími á nýja kraftröðun í 111. Að venju eru nokkur málsmetandi Leiknisljón búin að tilnefna þá 3 leikmenn sem þeir hafa mestar mætur á hverju sinni í réttri röð. Líklegast hefur síðasti leikurinn hverju sinni mest áhrif osfrv. Það voru 11 Ljón sem skiluðu atkvæðum að þessu sinni. Kíkjum í pakkann.
1. Sævar Atli Magnússon (2):
Gulldrengurinn, #MinnFyrirliði, El Sjerífó, Leikmaður umferðarinnar, Leikmaður deildarinnar (fyrri helming) og sóttvarnarfulltrúi KB. Leiðtogi liðsins okkar getur greinilega endalaust bætt á sig skrautfjöðrum. Hann skoraði 3 mörk í síðustu tveimur leikjum sem telur fjandi þungt en jafnvel í slöppu leikjunum fyrir það, var hann óþreytandi í baráttunni að reyna að kickstarta einhverju til að koma liðinu í betri stöðu. Það er hægt að treysta á kapteininn til að gefa allt í leikina, alla daga. Hann myndi, líklega, þegar öllu er á botninn hvolft, deyja fyrir klúbbinn. Bókstaflega. Það fór alls ekki framhjá kjósendum í þetta sinn því drengurinn fékk yfirburðarkosningu í fyrsta sæti. Þetta var ekki tæpt í eina sekúndu.
2. Vuk Óskar Dimitrijevic (1):
Það er dýrkeypt að missa út leik og að hanni tapist ekki. Fyrir þennan leik en að sjálfsögðu samgleðst Breiðholtsblómið (nýtt nafn vegna yfirvofandi vistaskipta til Hafnarfjarðar) félögum sínum af krafti og hann hættir ekkert að vera hæfileikaríkasti leikmaður liðsins. Hann var að skora í þessum slöppu leikjum og 4 mörk í þessum 4 leikjum sem hann hefur spilað síðan síðast. Hann er þriðji markahæsti maður í deildinni með 9 mörk og uppskar mikið hneyksli um allt land þegar hann var ekki valinn í U-21 landslið Íslands sem mætti Svíum í kvöld. Vonandi verður Vuk aftur í hóp á sunnudag því það er komin ágætisreynsla á það að beinasta leiðin inn í mark andstæðinganna er með því að láta þennan dreng fá boltann og sjá hvað gerist. Vuk var öruggur í 2. sæti í þessari kosningu og hefði að öllum líkindum veitt El Sjerífó meiri keppni ef hann hefði ekki misst síðasta leik sem er augljóslega ferskur í minni stuðningsmanna.
3.-4. Gyrðir(5) og Vélin (-):
Þessir tveir deila 3. sætinu með hnífjafna kosningu. Sem er skemmtileg tilviljun því hvorugur þeirra hefur fengið að vera í friði á einum stað á vellinum í sumar. Siggi hefur nýtt þá báða í sömu stöðunum í mismunandi leikjum og þótt maður vilji alltaf sjá Vélina á miðri miðjnni og Gyrði í miðverði, þá hafa þeir í raun slegið í gegn "út úr stöðu", allavega í síðustu 2 leikjum. Gyrðir hefur þó sérstaklega verið tilkomumikill í síðustu tveimur leikum í hægri bakverði, merkilegt nokk. Aflýsta þurfti Maður Leiksins kosningu á Instagram síðu okkar því fagmenn stigu bara inní og lýstu hann sigurvegara. Við deilum ekki við þannig dómara. Þá fáum við bara beint rautt. Gyrðir var á lista síðast og hefur skrifað undir brakandi ferskan samning síðan þá og virðist ætla að festa sig í sessi sem alger lykilmaður í liðinu, hvar sem Siggi ákveður að spila honum hverju sinni. Vélin er löngu orðinn lykilmaður í liðinu og öllum líður betur með hann inni á vellinum. Það er eiginlega ekkert mikið meira um það að segja. Það hefur allt verið sagt núþegar.
5.-6. Sólon og Bjarki:
Sólon setti mark ferils síns á miðvikudaginn þegar hann þrykkti hnettinum, að því er virtist, þvert yfir gervalla Heimaey og uppskar kalda vatnsgusu í andlit Gary og félaga sem þeir náðu aldrei að hrista af sér. Sólon er búinn að vera iðinn við að leggja félaga sína upp í sumar en er þar að auki kominn með 6 mörk í heildina fyrir sig í þessum 13 leikum. Hann hefur verið tekinn útaf fyrstur sóknarmanna í síðustu leikjum og því má gera sér í hugarlund að hann sé eitthvað ekki alveg að ganga heill til skógar þessa dagana en Leiknismaðurinn er það mikilvægur liðinu að hann verður að vera inná, þó það væri bara til að draga athygli til sín fyrir hina að nýta sér. Svona eins og þegar Scottie Pippen spilaði nánast blindur með mígreni, því blindur Pippen er betri en allir hinir leikmennirnir. Sólon er nú kominn í 55 leiki fyrir félagið og í þeim hefur hann skorað 26 mörk. Ef hann heldur út ferilinn með því að skora alltaf í rétt tæplega öðrum hverjum leik, þá festist hann í sögu félagsins sem allra besti sóknarmaðurinn.
Bjarki. Aðalmaðurinn í vörninni og alger klettur í leiknum á miðvikudag í Eyjum. Það er búið að vera að púsla liði saman í kringum hann í allt sumar og það eina sem hann getur treyst á hingað til er að Guy sé sótillur fyrir aftan hann að skipa mönnum fyrir. Bjarki hefur séð þetta allt áður og heldur ró sinni. Svo skoraði hann loksins mark í deildarleik hjá Leikni. Bara ekki fyrir Leikni. Þrátt fyrir það er hann loksins kominn inn í kraftröðunina. Það má fastlega gera ráð fyrir því að hann festi sig í sessi meðal 5 bestu manna liðsins ef honum tekst áfram að líma saman bara einhverja félaga í öftustu línu og berjast áfram fyrir draumnum um ferð í Pepsi Max.
Þá er það klárt. Liðið okkar er komið á blússandi siglingu jafnfljótt og það virtist missa dampinn fyrir 3 vikum. Megi það halda áfram sem lengst. Framarar í heimsókn á sunnudag með 100 manns í stúkunni. Þá verður toppsætið vonandi tekið og því haldið inn í haustið. Með ákefð má ýmsu áorka.
留言