top of page
Writer's pictureLjón

Máni Austmann: markahrókur, maður mótsins og meistari!

Okkar maður Máni Austmann er vestanhafs að taka þátt í einhverju allsherjarævintýri sem mun líða honum seint úr minni. Stráksi gerði sér lítið fyrir og skoraði eina mark leiksins í úrslitum Southern Conference mótsins og var valinn "Most Outstanding Player" í mótinu fyrir vikið. Ég slóg á þráðinn til Mána í dag og við ræddum þetta lítillega.


Til útskýringar fyrir þá sem ekki þekkja til, þá virkar fyrirkomulagið í Háskólasportinu vestanhafs þannig að lið spila í sínum svæðisdeildum enda hundruðir skóla að velja úr. Máni spilar með University of North-Carolina Greensboro í Southern Conference (Socon) ásamt 6 öðrum liðum. Þeir unnu úrslitakeppni þeirrar deildar um helgina og unnu sér þarmeð rétt til að taka til í stóra ballinu. NCAA-mótinu.

Þar eru þeir komnir í 36 liða hóp bestu liða allra Bandaríkjanna í útsláttakeppni sem fer af stað 29. apríl.


Maður mótsins í liðinu sem vann mótið og þú skoraðir markið sem tryggði sigur í úrslitaleiknum fyrir innan við 2 sólarhringum. Hvernig er tilfinningin?: “Þetta er búið að vera frábært bara. Þetta er svo stórt og mikið allt hérna. Eftir að þetta fór svoítið brösulega af stað hjá mér og með Covid og allt það, þá langaði mig bara að koma heim fyrir nokkrum mánuðum en þjálfarinn talaði mig til og sagði mér að þrauka 2 mánuði. Síðan þá höfum við ekki tapað og hér erum við. Mættir í NCAA mótið.“

Þegar þú heimsóttir Ljónvarpið í fyrrasumar með Degi, þá lýstir þú vonbrigðum með þjálfarann og umhverfið í Akron, þar sem þú spilaðir 1 árið þitt úti og fórst því til UNCG. Geturðu lýst aðeins muninum á umgjörðinni og stemningunni milli þessa ólíku skóla?: “Tjah, ég get alveg sagt þér dæmisögu um það. Í Akron unnum við deildina og hér fær maður svona hring fyrir það. Mjög amerískt en þannig er nú það. Ég fékk hins vegar aldrei hringinn minn og hef verið að hafa samband til að reyna að fá hann. Í dag fékk ég svo hring hér fyrir að vinna keppnina og hafði því samband við þjálfarann í Akron til að sjá hvort það bólaði eitthvað á hringnum mínum þaðan. Svarið sem ég fékk frá honum var að hann hefði gefið heimilislausum manni hringinn minn. Það lýsir svolítið stemningunni í Akron vel. Ég er í töluvert betri málum hérna.”


Er búið að vera stanslaust partý á ykkur síðan þið unnuð þetta?: “Neeeei, út af Covid má eiginlega ekki gera neitt og NCAA er að testa menn þrisvar í viku svo maður vill ekki gera neitt til að missa af tækifærinu sem er framundan. Svo er bara mjög stíft prógramm hérna. Æfingar, sjúkraþjálfun og lærdómur taka allan daginn hjá manni. En það er mikil umfjöllun og fjölmiðlafár í kringum okkur hérna. Það er helst það sem hefur gerbreyst á augabragði.”

Fyrir nokkrum klst var dregið í ykkar útsláttaleik þar og eruð þið eitt af 8 liðum sem eru að berjast um 4 sæti í 32 liða útsláttamóti NCAA. Rankaðir 23.í Bandaríkjunum. Þið mætið Denver eftir 10 daga á heimavelli. Ef þið vinnið þann leik er það stórveldi Stanford á heimavelli ykkar. Þeir eru rankaðir 4.í landinu. Þetta eru spennandi tímar: “Já, ég veit svosem ekkert um Denver en ég hef verið að fylgjast með nokkrum liðum og fyrir mér hef ég alltaf sagt að mest spennandi mótherjarnir eru Pitt og Stanford. Stanford eru með líkamlega sterkt og flott lið sem væri gaman að mæta og reyna að sigra. En við þurfum fyrst að sigra Denver og halda veislunni gangandi.” -Þú ert búinn að skora 6 mörk og liðið þitt komið á stóra sviðið. Eru njósnarar úr MLS og kannski víðar, ekki búnir að vera að skoða menn eins og þig? Eru líkur á að það gerist núna í NCAA mótinu? Þetta er væntanlega sterkur búðargluggi fyrir þig?: “Ja, þjálfarinn er eitthvað búinn að vera að gauka að mér að einhver lið hafi skoðað mig hingað til og nefndi FC Dallas í því sambandi. Að þjálfarinn þaðan hafi eitthvað verið að þefa. Ég veit ekki hvað mikið er að marka svoleiðis en yfirleitt, ef lið komast ekki inn í NCAA mótið, þá deyr slíkur áhugi nokkuð fljótt. Atvinnumannaliðin eru aðallega að skoða þetta lokamót á landsvísu þegar þeir eru að leita að liðsauka.”


Þú ert Sophomore svo þú átt Junior og Senior árin eftir, er það ekki? Þá ferðu aftur út næstu tvö haust og tekur þátt í ævintýrinu áfram, er það ekki?: “Ég ætla að sjá til. Það fer allt eftir námsárangrinum. Boltinn hefur verið tímafrekur og nú þarf maður aðeins og taka skorpu í náminu. Það fer í raun eftir því hvort maður haldi áfram. Svo veit ég ekki alveg hvað ég vil læra svo það er annað. En aðallega langar mig að get klárað tímabilið með Leikni í Pepsi-Max. Síðast þegar ég komst í efstu deild, þá fékk ég ekki að klára deildina og sé eftir því. Þetta verður erfitt sumar og skemmtilegt og ég vil endilega vera með af fullu krafti til loka sumars.” Ertu búinn að vera að fylgjast með strákunum á meðan þeir hafa verið læstir frá Domusnovavellinum og þú að stikna í sólinni?: “Já, ég er búinn að sjá alla leikina, held ég. Nema núna á föstudag við Kórdrengi og hef svoldið verið að fylgjast með þeim. Mér líst vel á þetta og hlakka til að koma inn í hópinn og byrja þetta.”



Við óskum Mána auðvitað til hamingju með þennan árangur og sendum honum baráttukveðjur yfir hafið fyrir næsta verkefni! Hann kemur svo í fantaformi heim í Breiðholtið með markafótinn góða.



94 views0 comments

Comentários


bottom of page