top of page
Writer's pictureLjón

#OperationPepsiMax: Complete

Til hamingju Leiknisfólk nær og fjær! Strákarnir okkar eru komnir upp í deild þeirra bestu og annað Pepsi-ævintýri því í uppsiglingu næsta sumar. Það er illmögulegt að koma orðum fyrir sig við þessar fordæmalausu aðstæður sem sæti í efstu deild varð að veruleika en það skal enginn efast um það að Stolt Breiðholts tryggði sér það með því að spila eftir leikreglunum og verðskuldar sæti sitt fyllilega.


Því skal líka haldið til haga að okkar menn voru meira en tilbúnir að klára mótið þegar tækifæri gæfist til. Menn lögðust ekkert í dvala með krosslagða fingur að vonast til þess að Guðni og co. í Laugardalnum myndu losa þá undan því að flengja Grindvíkinga á gervigrasinu okkar og fara svo norður að aflífa Þórsara. Ég heyrði í nokkrum leikmanna þegar þessi síðari pása var sett og þeir gengu allir kompanílínuna að þeir vildu helst af öllu klára mótið inni á vellinum og myndu halda sér í standi þar til kallið kæmi til að bruna út á völl í vettlingum með deepheatklínd læri og blóðbragð í munninum. Er einhver að lesa þetta sem myndi trúa öðru upp á lið sem Siggi fokking Höskulds þjálfar? Hélt ekki.


En að gleðinni aftur! Vorið 2019 fór einhver vegferð af stað með Stebba Gísla sem fyllti mann von um að félagið væri búið að hrista Pepsi 2015 þynnkuna af sér og hægt væri að horfa fram á veginn aftur og sjá stemninguna stigmagnast á næstu árum í átt að einhverju einstöku. Það var því fínasta pungspark að stóra nafnið stökk svo bara frá borði við fyrsta tækifæri þegar honum var boðinn bjór með meira en 7% áfengismagni í Belgíu. Að sama skapi var það mikið gæfuspor að stjórn félagsins vissi hvað hún hafði í höndum beint fyrir aftan þann mann. Siggi tók snuðrulaust við keflinu og leikmenn fylktust að baki honum. Liðið tapaði 2 af fyrstu 3 leikjunum undir hans stjórn meðan hann var að sparka í rassgöt og ná stemningunni á strik en svo ekki sögunni meir. Ósigraðir í seinni umferð mótsins og vonin lifði fram að síðasta flauti þann 21.sept um Pepsi-Max sæti. En það vantaði litla herðslumuninn. Hvað þá? Krossleggja fingur og tær og vona að allir væru til í slaginn aftur sumarið 2020? Nei, Nacho Heras lét sig hverfa, fyrirliðinn og leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins sagði þetta gott ásamt Stjána sem hafði víst spilað einhverja leiki fyrir félagið líka. Sat Siggi uppi með endurbyggingarverkefni í höndunum eftir 3 mánuði með þjálfaraflautuna í kjaftinum? Alls ekki. Menn alls staðar á Domusnovavellinum höfðu trú á verkefninu og kraft til að hrinda þeirri trú í framkvæmd. Fyrsta verkefnið var að skella fyrirliðabandinu á einhvern góðan dreng. Það var ekki augljóst að skella því á 19 ára pjakk sem hefur líklega eytt meiri tíma á Leiknissvæðinu á ævinni en í eigin rúmi að dreyma um það hlutverk. En sögubækurnar dæma það örugglega sem algeran no-brainer hjá Sigga að hafa tekið þá ákvörðun. Liðið er fullt af leiðtogum en á þessum tímamótum var gaman að sjá stjórann sýna pung og líklega á sama tíma sýna Sævari Atla það traust og ábyrgðartilfinningu sem hann hefur svo sannarlega þakkað með frammistöðu sinni. Innan sem utan vallar.

Það er ekki sjálfgefið að svona ungur maður mæti í viðtal eftir viðtal án þess að misstíga sig í tilsvörum. Hann hefur sagt hlutina eins og þeir eru um sitt lið en passað sig að festa sig ekki í gremju og leðjuslag um utanaðkomandi hluti. Það eru ekki sjálfgefin lífsgæði í boltanum að hafa þannig mann með bandið. Og til að loka lofræðunni um El Sjerífó verður undirritaður að tíunda aðdáun sína á markinu sem hann skoraði á heimavelli gegn vinum okkar frá Grenivík. Þar var Leiknishjartað hans opinberað fyrir öllum ef einhver vafi lék á því hvort það væri ekki að berjast í brjósti hans. Þetta var týpískur leikur þar sem liðið vantaði einhvern til að taka af skarið og ekki hika. Hann sótti tuðruna út á kant og prjónaði sig svo í gegnum vörnina án þess að líta upp og afsala sér ábyrgðinni og þrykkti svo í netið. Einfalt en lýsandi fyrir mann sem nennti ekki þessu hálfkáki og sýndi í verki hvernig ætti að drulla sér í gang. Ég held að við gerum okkur ekki alveg grein fyrir því hversu augljóslega hann væri á leið til Pepsi-deildarliðs ef markmið þessa árs hefðu ekki náðst. Blessunarlega þurfum við ekki að hugsa um það í bráð. Það er nokkuð magnað að hugsa til þess að á mánudag er nákvæmlega 1 ár síðan "pre-season" fyrir þetta tímabil hófst. Þá höfðu strákarnir þurrkað tárin eftir Inkasso-ástríðu sumarsins og voru klárir í að undirbúa atlöguna að Pepsi-Max á nýjan leik. Æfingar hófust í byrjun nóvember og Siggi byrjaði að púsla saman stjörnuliðinu strax. Það var frískandi að sjá hann sækja menn eins og Dag Austmann snemma og þegar skálað var í jólabjór í Austurbergi í desember var búið að setja saman lið sem gæti vel slegist á toppi deildarinnar. Það var ekki planið að fara inn í mót með nýlenta leikmenn að spila sig saman fram í mitt mót þetta árið. Ákaflega frískandi nálgun.


Það draup kokhreystið ef þessu teymi í Jólagleðinni 2019. Þeir vissu sínu viti.

Það var ekkert smámál þegar FH og Breiðablik komu krafsandi í Breiðholtsblómið Vuk Oskar Dimitrijevic í byrjun marsmánaðar. Lykilmaður 2019 þrátt fyrir ungan aldur og með gæði sem enginn annar gat bætt upp og von á öðru þroskaskrefi framávið þetta árið. En Leiknismenn eru ekki fæddir í gær. Þeir hirtu peninginn af FH og sömdu um afnot til ársloka af þessum dáðardreng. Hans verður sárt saknað en að sama skapi mun enginn gleyma því að án hans hefði draumurinn aldrei ræst í ár. Þá skall Covid-19 á með tilheyrandi áskorunum fyrir samfélagið allt og litla klúbbinn okkar. Það kom þó skýrt fram á aðalfundi félagsins að allir leikmenn lögðust á eitt til þess að hægt væri að sigla þann ólgusjó fram að kick-offi, hvenær sem það yrði. Leiknisfjölskyldan stóð saman.


Loksins þegar óhætt var að blása til leiks þurfti óvænt að leita nýs markvarðar en eins og sagt er í Hollywood-kvikmyndum er ástæða fyrir öllu. "Gamall" Leiknismaður sem hafði þekkt lítið annað en bekkjarsetu hjá öðrum félögum síðan Eyjó tryggði sér markið hjá okkur á sínum tíma, sagði sig frá verkefninu og upphófst leit í öllum skúmaskotum að gjaldgengum staðgengli. Að öðrum kosti þyrfti að leggja Pepsi-drauminn í heild sinni á ungar herðar Viktors Freys sem þó mun fyrr en síðar taka öll völd í teignum, vonandi jafnlengi og Eyjó gerði á undan.

Í gegnum klíkuskap við besta markvörð Pepsi-Max deildarinnar og að sögn um það bil 739 símtöl formannsins um allt land, þó víðar væri leitað, var hægt að frelsa Eyjó frá þeirri kvöð að mögulega svara neyðarópi félagsins þegar Guy Smit var fenginn til félagsins daginn fyrir fyrsta deildarleik. Hann er leikmaður sem kom inn og var ættleiddur undir eins í Leiknisfjölskylduna. Hann reif kjaft frá fyrsta sparki og ætlaði ekkert að bíða eftir virðingu fyrir sínum skipunum. CLOSE IT!!! Á fyrri hluta tímabilsins, þegar erfitt var að finna réttu blönduna í vörninni, bjargaði hann nokkrum stigum sem svo sannarlega borguðu sig þegar talið var uppúr pokanum á föstudagseftirmiðdaginn síðastliðinn. Hartelijk bedankt Guy! Svo rúllaði boltinn af stað og þeir sem vita, vita. Það er skjalfest hvers konar rússíbanareið þetta er búin að vera í sumar og haust. Strákarnir sýndu tennurnar og áttu sína öldudali en hrósa nú sigri. Undirritaður fær sennilega aldrei að lifa það niður að hann úrskurðaði Pepsi-drauminn í öndunarvél nær dauða en lífi og ætlar ekki að þræta fyrir að það hafi eflaust verið orðum ofaukið en þegar á hólminn var komið, svöruðu strákarnir gagnrýninni á vellinum og unnu sér inn réttinn til að máta sig við bestu liðin í landinu. Til hamingju og takk kærlega fyrir okkur strákar!


Þeir sem eru eldri en 8 ára muna hvers konar ævintýri það var að berjast fyrir tilverurétti sínum í efstu deild fyrir 5 árum og það í fyrsta sinn. Það má líkja því við EM2016 hjá landsliðinu. Endalaus endemis veisla. Í minningunni halda margir utanaðkomandi að af því við erum Leiknir þá hafi þetta verið vonlaus barátta og þetta litla sæta félag hafi ekki átt neitt erindi meðal þeirra bestu. Þvættingur! Það var nóg um jafna leiki og næstum því sigra og jafntefli til að fylla flotta úrklippubók og þrátt fyrir fall í 11. sæti (ekki 12.) ylja allir sér við minningar af stórkostlegu sumri þar sem frammistaða okkar í stúkunni og strákanna á vellinum vakti verðskuldaða athygli. Það er viðbúið að sumarið 2021 minni meira á HM2018 hjá landsliðinu. Been there, done that! Bought the T-shirt. En það er þroskamerki fyrir félagið og stuðningsmenn. Við erum tilætlunarsöm. Alveg eins og þegar Ísland átti að sigra Argentínu og Nígeríu og sætta sig við jafntefli gegn Króatíu en komast í undanúrslit í Rússlandi. Við ætlum ekki að sætta okkur við neitt annað en að festa okkur í sessi meðal þeirra bestu um ókomna framtíð. Það er geggjuð kynslóð uppalinna leikmanna til staðar ásamt "aðkeyptum" eldhugum sem þóttu ekki gjaldgengir í meistaraflokkum uppeldisfélaganna í efstu deild og hafa því sitthvað að sanna fyrir þeim og sjálfum sér. Ég ætla að vona að við séum með samskonar uppskeru af stuðningsmönnum til að taka slaginn með okkur árið 2021. Allir velkomnir! Það þarf 111% samtakamátt til að gera betur en síðast. Dragið andann djúpt og gerið ykkur klár í bátanna. Það eru 520 sæti í stúkunni á Domusnovavellinum og allra veðra von. Nú kallar hverfið ykkur heim í 111 bakvið geggjaða félagið okkar! LEIKNISLJÓN! Það vor´að berast skilaboð! Það er helvítis veisla framundan!



153 views0 comments

Comentarios


bottom of page