top of page
Writer's pictureLjón

Power Ranking

Það er komið að því að taka hús á því hverjir eru að skara framúr í leikmannahópi okkar manna. Fyrir þá sem ekki þekkja til er fyrirbærið nokkuð amerískt og þekkist í NFL, NBA og víðar þar. Í staðinn fyrir að horfa á stöðuna í deildinni eða aðrar tölur um lengra tímabil er um að ræða hver er í besta forminu og á eldi eins og er.



Við höfum stækkað hópinn nokkuð og í þessari umferð tóku þátt 7 harðir stuðningsmenn sem láta sig málið varða. Hver þeirra raðaði sínum 3 heitustu leikmönnum eftir sínu höfði og hér koma niðurstöðurnar:



1. Daníel Finns Matthíasson: Þvílík innkoma hjá drengnum. Hann kom eitthvað við sögu í fyrra en spilaði líka með 2. flokki. Þegar 2. flokks dyrnar lokuðust í haust var eins og hann hafi fengið eitthvað spark í rassinn og var á eldi í æfingaleikjum í allan vetur og kemur inn í tímabilið nákvæmlega eins og maður hefði óskað sér. Þó þessi dagfarsprúði drengur læðist með veggjum í Austurbergi þá verður hann að fyrsta flokks dólg þegar hann stígur á grasið, leitandi að sendingum og skotum sem niðurlægja andstæðingana og fá okkur til að taka andköfum. Hann er líka vel liðtækur í að standa vaktina í varnarleik og veit vel að hann þarf að fylgja fyrirmælum reyndari manna í þeim málum. 5 mörk í 4 leikjum hingað til og virkilega spennandi tímar framundan að fylgjast með þessum dreng.



2. Guy Smit: Það stefndi í hrikalegt klúður fyrir innan við mánuði síðan. Félagið var með einn tvítugan dreng í markmannsstöðunni fyrir meistaraflokk og stjórn og formaður á yfirsnúningi að fá hurðar skelltar í smettið á sér við leit að liðsauka. Ekki er alveg skýrt hvernig Hollendingurinn var sannfærður um að koma en talað var um að landsliðsmarkvörðurinn okkar hafi platað hann í djobbið. Eftir 3 leiki lítur þetta allt út fyrir að hafa verið þaulplanað og minnsta mál í heimi. Best markvörður deildarinnar (og þó víðar væri leitað) fenginn 5 mínútur í mót og hann hefur þegar bjargað 3 stigum í síðustu 2 leikjum fyrir félagið. Það gæti verið munurinn í haust þó hann breyttist í meðalmarkvörð úr þessu. Áhersla liðsins er á sóknarleik og vörnin er löskuð þar sem besta uppstillingin er ekki fundin og því hefur hingað til ekki komið til þess að hann hafi átt náðugan leik. En á meðan hann tryggir okkur stig á meðan við náum vopnum okkar þarna á vellinum, horfum við aðdáunaraugum á þennan hvalreka.


3. Vuk Óskar: Ef menn héldu að hausinn væri kominn í Hafnarfjörðinn höfðu þeir alrangt fyrir sér. Serbneska blómið virðist ætla sér að skila uppeldisfélaginu í efstu deild áður en hann kveður í bili. Hann vill greinilega fá að spila allavega einn leik á Domusnovavellinum næsta sumar. Vuk kemur feyknasterkur inn í tímabilið með ákefð og tæknibrellur í kassavís. Hann er búinn að skora eitt mark en glundroðinn sem fætur hans valda í varnarleik andstæðinganna segir mikið stærri sögu og er líklega erfitt að mæla í tölum. Hann veiðir spjöld hjá pirruðum andstæðingum sem ráða ekki við hraðann og býr til alls kyns pláss fyrir liðsfélagana. Hann er ekki lengur lúxusleikmaður sem liðið þarf að verjast fyrir heldur sést hann ítrekað koma sterkur til baka þegar með þarf að verja vörnina fyrir áhlaupi. Vuk er líklega sá leikmaður sem breytir spili liðsins mest þegar hann er ekki með. Hans er saknað mest allra þegar hann er fjarverandi.



4. Máni Austmann: Hér höfum við sennilega eina dæmið um eitthvað sem Donald Trump hefur gert rétt. Með því að klúðra meðhöndlun Covid19 hefur okkur áskotnast þessi snjalli leikmaður frá byrjun tímabilsins og maður er farinn að vona að appelsínugula fíflið vestanhafs haldi áfram trúðslátunum út október svo drengurinn geti spriklað út tímabilið með okkur í stað þess að mennta sig þar. Hann er svo sannarlega búinn að vera betri en enginn. 3 mörk í 5 leikjum og sískapandi hættu og færi fyrir liðsfélaga. Við fengum hvalreka í Stefáni Árna á láni í fyrra og menn veltu fyrir sér hver gæti verið sá leikmaður í sumar. Máni átti, eins og áður segir, að vera í námi á þessum tíma og spila aukahlutverk í sumrinu en hann hefur í raun tekið sæti Stefáns fullkomlega. Hann er sjöa sem sækir úr öllum áttum, getur stundum hlaupið í vesen en hefur einstakt lag á að vera viðstaddur þar sem hætta skapast. Áfram svona takk Máni!


5. Sævar Atli: Fyrirliðinn er ekki búinn að fara af stað af krafti í markaskorun með eitt mark í 5 leikjum og var það í fyrsta leik gegn Kára en það truflar menn furðulítið því hann leiðir liðið fremst á vellinum og tekur til sín varnarmenn, átti flotta stoðsendingu á æskuvininn til að skorga sigurmarkið á föstudag osfrv. Sævar Atli leiðir línuna á meðan Sólon er að koma sér í stand og berst fyrir öllu sem hægt er að berjast þarna á vellinum. Það er svosem ekki útséð með að Gulldrengurinn nái að raða mörgum mörkum í röð saman en það er ekki beinlínis lykilatriðið þegar maður ber vonir alls hverfisins á bakinu og mörkin eru enn að koma úr öllum áttum. Við þiggjum það áfram að hann sýndi glæsilegt fordæmi í baráttu fremst á vellinum og refsi svo þegar menn misstíga sig þar.



145 views0 comments

Comments


bottom of page