top of page
Writer's pictureLjón

Reykjavíkurmótinu lokið eftir yfirbugun Hlíðarendamanna

Okkar menn voru kjöldregnir í 3. og síðasta leik liðsins í B-riðli Reykjavíkurmótsins af Valsmönnum Heimis Guðjónssonar í gærkvöld í Egilshöll. Í kjölfarið tóku Víkingar Fram í kennslustund og þarmeð töpuðu Leiknismenn 2.sæti riðiðlsins og eru því úr leik.


Þessir voru á (áhorfenda)bekknum í gærkvöld. Það er næg afsökun fyrir tapinu :)

Valsarar voru komnir áfram í undanúrslit áður en flautað var til leiks en þeir voru ekkert að grínast með byrjunarliðið sitt og ætluðu sér ekkert minna en 3 örugg stig. Leiknisliðið var hins vegar með nokkuð mikið af ungum og nýjum leikmönnum í sínum röðum.


Það er skemmst frá því að segja að Patrick Pedersen skoraði 3 mörk í fyrri hálfleik, á 4., 13. og 39. mínútu og ef Siggi hefur lagt línurnar með að halda þeirra toppmönnum í skefjum, þá mistókst það myndarlega. Það er hægt að segja að leikur okkar manna hafi mjög fljótlega flosnað upp og verið sundurliðaður. Það komu ein og ein færi en sem áhorfandi var erfitt að finna mikið til að gleðjast yfir eða taka með í áframhaldandi undirbúining fyrir sumarið. Það er kannski mikilvægast að hafa í huga að þarna vorum við að mæta feyknasterku liði sem verður í toppbaráttu Pepsi Max í sumar og þeir vanmátu okkar menn ekki baun. Mættu bara með sterkt lið og yfirbuguðu okkar leikmenn.


Það eina jákvæða sem undirritaður tók með sér inn í helgina var að Viktor Freyr var nokkuð ferskur milli stanganna. Hann fékk á sig 3 mörk en náði að verja nokkrum sinnum myndarlega og var nokkuð sleipur á boltanum með öruggar spyrnur fram völlinn. Hann er hávaxinn og ungur (2000 árgerð) og væri gaman að sjá hann fá sem allra flest tækifæri til að negla niður stöðu Eyjós til 10 ára. Annað sem var gaman að sjá var að Dagur Austmann var nokkuð öruggur í sínum aðgerðum í vörninni og þrátt fyrir ungan aldur lak af honum reynsla sem flestir aðrir í liðinu höfðu ekki. Það kom ekkert fát á hann þegar hann tók á móti askvaðandi Kaj Leó og félögum og hann skilaði boltanum af nokkru öryggi upp völlinn þegar flóttaleiðir voru opnar.


Eftir tvo góða leiki gegn Fram og Víking var viðbúið að Valur væri fullstór biti en það mátti vona. Nú mætast 4 Pepsi-Max lið í undanúrslitum höfuðstaðarbikarsins eins og vera ber. Strákarnir okkar halda áfram að æfa af krafti og læra dýrmætar lexíur af þessari reynslu.


Bring on Lengjubikarinn!


78 views0 comments

Comments


bottom of page