Sigurður Heiðar Höskuldsson hefur skrifað undir samning um að gera sig gráhærðan merktum Leikni Reykjavík næstu 3 tímabilin í viðbót hið minnsta. Þetta er svo mikið gleðiefni að það er um að gera að stinga niður penna af því tilefni.
Það fer alltaf í taugarnar á mér þegar menn henda svona fyrirsögnum upp eins og um sé að ræða staðreynd. Án þess að reyna að vera með bömmer, þá er ekkert sem segir að einhverjir trúðar í Belgíu komi ekki aftur og stingi undan uppbyggingu félagsins með gyllboðum til eins mest spennandi þjálfara landsins. Ég held að við séum öll sammála um að félagið er á frábærum stað með Sigga við stjórnvölin en að sama skapi værum við enn ólíklegri til að standa í vegi fyrir honum ef hann fengi tækifæri til að láta drauminn rætast á stærri vettvangi.
En það er eitthvað svo notalegt að vita til þess að allir séu nógu sáttir með hvern annan til að setjast niður og klára þessi mál á meðan það er ekki orðið ljóst hvar við spilum að ári. Þetta er glerhörð sameiginleg yfirlýsing frá öllum aðilum að sama hvað gerist, þá verðum við áfram uppfull af metnaði og þetta er væntanlega ekki síður mikilvægt fyrir alla ungu leikmennina sem ekki heita Vuk. Við vitum nú að það var ekki einsdæmi að leikmannamál voru kominn í fast form löngu áður en snjóa leysti í vor. Stöðugleiki, metnaður og gleði verða við völdin í efra Breiðholti næstu árin.
Það eru rétt tæpir 15 mánuðir síðan þessi Siggi tók við stjórnartaumum í 111 þegar enn eitt stóra þjálfaranafnið hvarf á brott, í þetta sinn áður en hálft tímabilið var á enda. Það verður að hrósa formanni, framkvæmdastjóra og stjórn fyrir að hafa hraðar hendur og vita hvers konar öðlingsdreng við höfðum innan félagsins og festa vagn sinn við hann án teljandi umhugsunar. Maðurinn með stálaugnarráðið en hlýja brosið virðist stýra liðinu á sama hátt; Af ákveðni, metnaði og skipulagi en á sama tíma með umhyggju fyrir líðan leikmanna og hópsins í heild.
Undirritaður leitar oft að einhverju bitastæðu til að færa í stílinn á þessari vefsíðu. Eitthvað til að krydda tilveruna. En í ákvarðanatöku þjálfarans hefur verið óttalega fátæklegt um að lítast í þeim málum. Það er fullkomið traust til okkar manns að hann viti hvað hann er að gera og ef maður er ósammála því, þá er líklegast að maður sé ekki að sjá heildarmyndina eða vaði í villu og svima með skoðanir sínar. Gott dæmi er líklega að ég hefði viljað sjá Chiazor inná fyrir Mána gegn Grindavík eftir 55-60 mínútur. Máni var með ýmislegt á hornum sér og ekki að eiga sinn besta leik í sumar. Það var ljóst að ef leikurinn ætti að vinnast, yrði það í gegnum hraða sókn upp kantinn en í staðinn fyrir að pirra sig á því að sá hollenski kom ekki inná, þá hugsar maður sjálfkrafa að stjórinn viti af hverju það væri ekki góð hugmynd. Ef til vill heldur Máni varnarleiknum uppi betur en sókndjarfur leigumorðingi. Og líklegast var leikurinn í það miklum járnum að við máttum ekki gefa eftir eina hlið vallarins í von um að vinna en geta þannig tapað.
Kannski ofhugsað, en dæmi um hvað maður treystir manninum í brúnni vel. Svo vel, að það er ekkert bitastætt um hans frammistöðu að skrifa. Bara eitthvað jákvæðnishjal og fullt hjarta af þökkum fyrir að á sama tíma að yfirskrift nýjast hlaðvarps fotbolti.net er "Vonbrigðin eru víða" erum við Leiknisljónin uppspennt að horfa á blóðuga baráttu fyrir draumnum okkar þegar snjór er kominn aftur í Esjuna. Það er lúxus að félagið okkar sé þannig statt. Við erum glaðari stuðningsmenn en t.d. Blikar, KR-ingar, Vestmannaeyingar og margir fleiri. Tímabilið okkar er hvergi nærri búið og við þekkjum hvað það er leiðinlegt þegar maður hefur engu að spila að í margar umferðir í lok sumars. Það hefði verið enn verra einmitt þegar tímabilið dregst inn í haustmánuðina.
Það er stutt eftir í þessu núna. 3 leikir á 7 dögum frá og með næsta laugardegi. Siggi er niðurnegldur. Við getum treyst því að liðið verður klárt í slaginn í næstsíðasta heimaleik tímabilsins og Pepsi-Max draumurinn lifir. Takk Siggi, takk stjórning og strákarnir.
Komasooooo!
Comments