top of page
Writer's pictureljonavarpid

Sólon Breki leggur skóna á hilluna

Hinn mikli Leiknismaður, Sólon Breki Leifsson, hefur lagt knattspyrnuskóna á hilluna. Þetta kemur fram í færslu á vegg leikmannsins á Instagram rétt í þessu. Þetta geta vart talist miklar gleðifréttir fyrir okkur aðdáendur Sólons enda er hann nýskriðinn yfir 23 ára múrinn og búinn að vera mikill markaskorari fyrir félagið frá fyrsta degi. Vonir stóðu til að hann myndi fylla 10 ár í viðbót hið minnsta í fremstu víglínu.


Því miður settu þrálát meiðsli strik í reikninginn hjá okkar manni í sumar þegar okkur hefði ekki veitt af mörkunum hans en ætla má að það hafi spilað einhverja rullu í ákvörðun hans að segja nú skilið við knattspyrnuvöllinn og snúa sér að öðrum spennandi hlutum. Þó að Sólon hafi ekki náð nema 69 leikjum fyrir félagið í deild og bikar, þá varð á fyrsta degi ljóst að hann var hörkusóknarmaður með um það bil mark í öðrum hverjum leik þar til meiðslin og innákomur af bekknum í sumar settu þær tölur úr smá samhengi. Hann skoraði í heildina 29 mörk fyrir félagið. Þrátt fyrir að hafa verið alinn upp í Breiðablik, aðlagaðist hann Leikni tafarlaust eins og um innfæddann Breiðholtsvilling væri að ræða og setti hann svip sinn ekki bara á spilamennsku liðsins á vellinum, heldur stemninguna kringum búningsklefann.

Líklegt verður að teljast að Sólon hafi verið fyrsti leikmaður Leiknis til að troða upp sem rapparinn en hann vissi alveg hvað hann var að meina sem MC Smálán:


Undir lok tímabils í fyrra kíkti Sólon í heimsókn í Ljónavarpið og ræddi heima og geima. Hægt er að hlýða á það spjall hér. Eða á Spotify auðvitað. Við munum reyna að fá drenginn í spjall á næstu vikum og fara betur yfir tíma hans í boltanum.


Við þökkum Sóloni að sjálfsögðu fyrir verulegt framlag sitt til félagsins og vonumst til að sjá hann bandbrjálaðann í stúkunni að berja gömlu félagana áfram með okkur á næsta tímabili.




34 views0 comments

Comentários


bottom of page