top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Afturelding í Mosó

Á föstudagskvöld kl 19:15 fer fram fyrsti útileikurinn þetta sumarið hjá strákunum okkar þegar þeir mæta nýliðum Aftureldingar á Varmárvelli í Mosfellsbæ.


 

Inkassódeild, 2.umferð

10.maí, 19:15

Varmárvöllur, Mosfellsbæ




Nýliðarnir unnu 2. deild í fyrra og ætla sér að halda velli í Inkasso-ástríðunni í sumar enda ný stúka í byggingu (sem verður vonandi lagt lokahönd á kortér í leik) og mikill hugur í félaginu. Veðurspáin er ágæt fyrir leikinn, léttskýjað og 6 gráðu hiti með 6 metrum á sekúndu. Engin afsökun fyrir Leiknisljón að sitja heima.


Magnús Már Einarsson, sem lék 10 leiki fyrir Leikni á sínum tíma, er nú aðstoðarþjálfari Mosómanna. Annars er það bara Trausti Sigurbjörnsson, markvörður, sem hefur áður spilað fyrir Leikni í liði heimamanna. Hann leysti Eyjó af í tveimur leikjum í fyrra. Okkar megin er Viktor Marel, sóknarmaðurinn ungi, sem kom yfir til Leiknis í vetur. Hann var ekki í hóp í 1. leiknum gegn Magna og er ólíklegur til að vera í hóp í þessum leik.


Í fyrsta leik mættu Mosómenn Þór Akureyri á útivelli og lutu í lægra haldi fyrir sterkum norðanmönnum 3-1. Eins og frægt er orðið unnu okkar menn Magna 4-1 og verma toppsæti deildarinnar eftir 1.umferð. Markmiðið verður að halda því sæti með því að skora aftur fjölda marka og reyna að halda hreinu enda var Magni eina liðið sem var spáð verra gengi en Aftureldingu í sumar.


Andri Freyr er Sólon þeirra Mosómanna


Í liði Aftureldingar er einn leikmaður sem skorar mörkin flest. Ef Bjarki, Nacho og Gyrðir slökkva á Andra Frey Jónassyni, ætti eftirleikurinn að vera auðveldur fyrir Sólon og co. í framlínunni. Andri skoraði 26 mörk í 21 leik síðasta sumar og var valinn Íþróttamaður Mosfellsbæjar í fyrra í þessum mikla handboltabæ. Hann skoraði einmitt eina mark Mosómanna í leiknum gegn Þór síðustu helgi. Erfiður viðreignar drengurinn sá.


Í vörn Aftureldingar er Loic Ondo lykilmaður en það má engu að síður búast við því að bæði liðin ætli að sigra á sóknarbolta í þessum leik. Það ætti því að vera nóg fyrir peninginn að sjá á vellinum í þetta sinn.


Í tímavél Leiknissíðunnar er tekinn fyrir síðasti leikurinn milli þessara liða sem var fyrir 10 árum og lauk með 3-2 sigri okkar manna í síðasta leik tímabilsins. Afturelding var þegar fallið þegar leikurinn fór fram og Leiknir endaði í 7.sæti.


Eftir góða frammistöðu gegn Magna síðustu helgi, eru allar líkur á því að Stebbi Gísla haldi trú við byrjunarliðið þann daginn. Við ætlum að skafa eitt mark af úrslitum síðustu helgar og spá 1-3 sigri okkar manna í þessum leik. Stefán Árni með fyrsta í þetta sinn og Ingó með eitt af hinum tveimur, beint úr aukaspyrnu.


Líklegt byrjunarlið er líklega breytingarlaust






96 views0 comments

Comments


bottom of page