Safamýrisstórveldið er síðasta liðið sem sigraði Leikni í sumar og hverfishetjurnar okkar hafa tækifæri til að ekki bara hefna þess taps og klára seinni umferðina taplausir heldur gæti ævintýri átt sér stað þar sem Leiknir er aftur meðal þeirra bestu á Íslandi í kring um 15:50 á laugardag. Þú og allir sem þú þekkir, mætið auðvitað á Domusnova-völlinn í Austurbergi að sjá senur.
Inkassódeild, 22.umferð
21.sept 14:00
Domusnova-vellinum, Austurbergi 1
Veðurspá: 14°C, 5 metrar á sekúndu og skýjað. Fullkomið veður fyrir síðasta leikinn. MÆTA!
Það er komið að því. Smiðshöggið á tímabilið okkar hér í 111. Steindauður, þýðingarlaus leikur sem varla er þess virði að mæta á. Djók! Við erum að fara að mæta á nýja Domusnova-völlinn og krossleggja fingur um að ævintýri sumarsins 2015 sé endurtekið 5 árum síðar. Við þurfum að vinna Fram og Grótta þarf að tapa fyrir Haukum á Seltjarnarnesi. Markatölumunurinn sem við eða þeir þurfum sameiginlega að vinna upp eru 3 mörk. Þetta er semsagt ekki í höndum strákanna okkar og það tekur ugglaust einhverja pressu af þeim. Verkefnið er nógu ærið með að þurfa að klára nokkuð ferska Framara og slútta tímabilinu og á góðum nótum. Ef Grótta klárar Hauka eða gerir jafntefli við þá, er Grótta komin upp í Pepsi Max og við sitjum eftir, óbreyttir í 3. sæti deildarinnar.
Engin skömm að því, svo því sé haldið til haga. Að vera 3. besta liðið þetta sumarið og hafa stóra hluti að byggja á í vetur, er ákaflega spennandi tilhugsun líka. Framarar, í 4. sæti, geta ekki haft sætaskipti við Leikni, sama hvernig fer á laugardag. En miði er möguleiki fyrir okkur Leiknismenn og eins og Árni Súperman og Pape Mamadou Faye fóru yfir í Ljónavarpinu í vikunnni, hafa ótrúlegir hlutir gerst á Leiknisvelli á síðasta degi í 1. deildinni áður.
Við minnum svo að sjálfsögðu á Lokahófið í Leiknishúsi um kvöldið. Allir velunnarar Leiknis eru velkomnir. Frítt inn og flott boð á barnum. Leikmaður ársins verður tilkynntur, þjálfarar meistaraflokkanna halda tölu og Lokahófsmyndbandið árlega verður frumsýnt. Þetta er tækifæri fyrir Leiknisfólk að þakka strákunum og stelpunum fyrir gott mót í sumar og jafnvel hvetja þau til áframhaldandi dáða undir merkjum félagsins. Húsið opnar 19:15 og við viljum sjá húsfylli og rúmlega það til að fagna frábærum árangri sumarsins hvernig sem fer. Ef allt fer á besta veg er ólíklegt að húsinu verði lokað milli leiks og Lokahófs. Við getum gert fastlega ráð fyrir því að öll dagskrá riðlist verulega ef við erum á leið í Pepsi-Max deildina að ári.
Andstæðingurinn: Fram.
Hið fornfræga lið Fram hefur fundið grúvið aftur. Eftir milljón ár spilandi á þjóðarleikvangi við ákaflega takmarkaðann áhuga áhorfenda og umfjöllunaraðila eru Framarar mættir, allavega tímabundið, í Safamýrina aftur og hafa í sumar gefið flestum leik. Gengið hefur verið upp og niður og þeir hafa tapað óvænt hér og þar en það eru mörk í þessu liði og eins og okkar menn brenndu sig á í Safamýrinni fyrr í sumar, þá er hægt að spila vel gegn þeim og uppskera nákvæmlega ekkert fyrir það.
Þetta verður leikurinn milli tveggja bestu liða deildarinnar ef tekið er tillit til formsins í síðustu 5 leikjum. Leiknir er efst með 11 stig í þeim leikjum og Framarar stigi minna á sama tíma. Góðu fréttirnar fyrir okkur eru að í sumar er Fram búið að vera besta lið deildarinnar á heimavelli með 23 stig í 11 leikjum en þeir eru í 9. sæti á útivöllum með 10 stig í 10 leikjum. Við stuðningsmenn getum gert okkar til að gera þeim lífið óbærilegt í 111.
Lykilmenn:
Helgi Guðjónsson #9 er markahæstur í deildinni fyrir lokaumferðina með 15 mörk af þeim 32 sem liðið hefur skorað í deildinni í sumar. Hann er einu marki ofar en Petur Theodor Árnason í Gróttu svo hann þarf að skora 1 eða 2 gegn okkur ef hann vill tryggja sér titilinn. Tiago #20 á miðjunni hefur verið mikilvægur hlekkur í sigurleikjum liðsins og umtalað að þegar hann er ekki vel fyrirkallaður er liðið töluvert lakara en alla jafna. Spurning hvort Vélin okkar geti ekki tryggt að hann eigi ömurlegan leik? Marcao #6 í vörn liðsins hefur verið litríkur leikmaður sem okkar lipru sóknarmenn ættu vonandi að geta strítt svolítið með hraða sínum.
Fyrri viðureignir:
Eins og áður segir, töpuðum við síðast leik einmitt gegn Fram og var það í fyrri umferðinni. Nánar tiltekið 11.júlí. Sá leikur tapaðist 2-1 með mörkum frá Helga og þrátt fyrir að flestir Leiknismenn sáu mikil batamerki í leik liðsins, náðu okkar menn ekki að snúa taflinu sér í vil. Á laugardag ætla menn að hefna fyrir það. Annars er staðan í viðureignum liðanna í deild síðustu 10 ár 3 aðrir sigrar þeim í vil gegn 1 hjá okkur og 2 jafntefli. Þetta hefur enga þýðingu því við erum með ósigrandi lið í höndunum með hungur fyrir ævintýri.
Bönn og meiðsli:
Hjá Leikni eru allir klárir í baráttuna. Hjá Fram er Unnar Steinn Ingvarsson í leikbanni.
Spáin:
Eins og margoft er búið að tyggja í ykkur eru okkar menn ósigraðir í seinni umferð mótsins og hafa vaxið gífurlega undir stjórn Sigga. Það er því óhugsandi að menn fari inn í þennan leik með eitthvað annað í huga en að klára þetta með stæl. Menn geta ekki spilað uppá 2 marka sigur en það er það sem þarf og svo vonast eftir að Haukar sigri Gróttu (þó að þeim báðum liðum dugi jafntefli). Leiknir endar í versta falli í 3. sæti þegar allt er upp talið rétt tæplega 16:00 á morgun. Það er ekki öfundsvert verkefni að halda strákunum á jörðinni en þess vegna eru menn ráðnir sérstaklega í þau verkefni. Við stuðningsmennirnir gerum bara einfalda kröfu á leikmenn og þjálfara. Haldið áfram að sýna karakterinn sem þið hafið verið að sýna í allt sumar og við tökum örlögum okkar hvernig sem þau verða. En 3-1 á Domusnova-vellinum samt, takk!
Comments