top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Framarar í Safamýrinni

Leiknismenn ljúka fyrri helming tímabilsins í Safamýrinni á föstudagskvöld þar sem þeir mæta spútnikliði Framara á þeirra gamla góða heimavelli.



Inkassódeild, 11.umferð

11.júlí, 19:15

Framvöllur, Safamýri, Reykjavík

Veðurspá: Alskýjað, logn og 14°C



Andstæðingurinn: Fram

Það þekkja allir stórveldið úr Safamýrinni þó að það hafi verið í tómu veseni síðustu áratugi. Félagið hefur verið heimilislaust og árangurslítið í allt of mörg ár fyrir þeirra eigin smekk. Það er ekki laust við að hægt sé að bera Fram saman við New York Knicks í NBA deildinni. Við sem höfum toppað 30 árin munum eftir þeim sem stórveldi en þeir sem eru að að hefja knattspyrnuferilinn þekkja þá ekki af neinum kraftaverkum á vellinum. Félagið er búið að spila fjölda ára fyrir tómum þjóðarleikvangi Íslendinga við mjög dræmar undirtektir en í sumar hafa þeir brugðið á það ráð að snúa aftur í Safamýrina ásamt því að hætta að pirra sig á því að vera ekki í deild þeirra bestu. Þetta hefur haft þau áhrif að stemningin í kringum liðið er mikil og menn eru bjartsýnni en þeir hafa leyft sér í fjölda ára. Jón Sveinsson, goðsögn frá níunda áratugnum í röðum félagsins, tók við þjálfun liðsins í vetur og hefur verið óhræddur við að gefa heimaöldum leikmönnum tækifæri í liðinu.


Liðið endaði í 9.sæti í Inkasso í fyrra og styrkti sig ekki mikið í vetur fyrir átökin í ár svo það hefur komið á óvart að þeir eru nú í 5. sæti deildarinnar. Þeir töpuðu reyndar illa á Akureyri í síðustu umferð eftir að hafa fengið á sig rautt spjal í fyrri hálfleik, 3-0 gegn Þórsurum en voru annars komnir á góða siglingu í deildinni við toppinn. Það er á tæru að heimamenn munu reyna allt sem þeir geta til að tryggja sig aftur í toppbaráttuna í Inkasso-ástríðunni. Í spá þjálfara og fyrirliða fyrir tímabilið fékk Fram einu stigi meira en Leiknir í spáni.


2 stig skilja liðin að í töflunni og geta okkar menn yfirtekið gestgjafana með sigri. Liðin eru líka svipuð í markaskorun og vörn. Heimamenn hafa skorað 15 mörk og fengið á sig 14 á meðan okkar menn hafa skorað 16 og fengið á sig 17. Í síðustu 5 leikjum hafa Framarar hirt 9 stig á meðan okkar menn hafa tekið 6 stig.


Saraiva kemur aftur inn í lið Framara

Lykilleikmenn:

Helgi Guðjónsson (#9) er markahæstur í liði Fram og sá þriðji í deildinni með 6 mörk í 10 leikjum. Það verður að hafa hann í gjörgæslu ef ekki á illa að fara hjá okkar mönnum. Að sama skapi hefur Frederico Bello Saraiva (#7) verið iðinn við kolann og skilað 4 mörkum í 9 leikjum. Hann var í leikbanni þegar Framarar lentu í hakkavélinni fyrir norðan í síðustu umferð og kemur því ugglaust hungraður til leiks í heimahögunum á fimmtudagskvöld. Í vörn Framara hefur klunnalegur útlendingur farið á kostum í Marcao (#20). Sævar Atli, Sólon og Vuk ættu að gera sitt besta að leika á hann.

Gunnar Gunnarsson færði sig úr kuldanum hjá Þrótti í byrjun júlí en náði ekki inn í hóp fyrir síðasta leik. Hann gæti komið inn í miðvörðinn gegn Leikni. Hann kemur þá líklega snælduvitlaus eftir að hafa ekkert komið við sögu hingað til í sumar þrátt fyrir að vera heill heilsu.


Fyrri leikir:

Við förum ekki lengra en 10 ár aftur í tímann í þessum þætti á Ljónavarpinu en á því tímabili var það ekki fyrr en fyrir 3 árum sem við mættum Fram í deild fyrst. Það eru líka orðin 3 ár síðan okkar menn náðu eina sigri sínum gegn Safamýrisstórveldinu. Annars eru þetta í heild 6 leikir sem hafa þrisvar tapast og endað með tveimur jafnteflum. Heimskulegt að vera að spá í þetta því nú erum við með Nacho og Vuk í liðinu. Það mun telja á fimmtudagskvöld, ekki sagan.


Bönn og meiðsli:

Jökull Steinn Ólafsson verður í banni í liði Fram eftir rauða spjaldið gegn Þórsurum. Það er enginn í banni hjá Leikni. Allir eru orðnir heilir í okkar röðum en út dettur Ernir Freyr bakvörður sem er farinn á láni til KFG í 3.deildinni.

Spáin:

Það ætti að vera kappsmál fyrir bæði lið að taka 3 stig inn í hálfleikshlé tímabilsins (sem þó er mjög stutt. Leikur aftur á þriðjudagskvöld). Framarar vilja stimpla sig aftur inn í toppbaráttuna og okkar menn vilja vonandi vera fyrir ofan miðlínu deildarinnar fyrir lokasprettinn. Bæði lið geta skorað og verjast nokkuð illa nema í undantekningatilfellum. Þetta gæti því orðið opinn og spennandi leikur. Við skjótum á að okkar menn taki þetta 1-2 í miklum baráttuleik. Koma svoooooo LEIKNISMENN!



72 views0 comments

Comentarios


bottom of page