top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun fyrir Njarðvík: Stefnumót við grænu grýluna

Við brunum suðurlandsbrautina á fimmtudagskvöld í miklum hefndarhug að sækja aftur stigin þrjú sem við skildum eftir á borðinu á Leiknisvelli í maí.


Inkassódeild, 14.umferð

25.júlí, 19:15

Rafholtsvelli, Njarðvík

Veðurspá: Heiðskýrt, blíða og 12°C takk!

Rafholtsvöllurinn í öllu sínu veldi. Mæting tímanlega

Með mikla von í hjarta mættu menn til leiks á fyrsta heimaleikinn á grasinu í þann 17.maí síðastliðinn, tilbúnir að salta Njarðvíkurmenn sem spáð hafði verið basli í sumar. Þegar flautað var til hálfleiks þann daginn var Leiknir 0-2 undir og fyrir utan vítaspyrnu undir lok leiks sem Sævar Atli skoraði úr frákasti af, var lítið að frétta hjá okkar mönnum. Sem betur fer hefur seinni helmingur tímabilsins farið betur af stað hjá Leikni og að sama skapi hefur leikur Njarðvíkur hríðversnað eftir góða byrjun á tímabilinu. Því er hægt að segja að fyrir utan að menn eiga að vilja hefna fyrir ófarirnar í maí, sé ekki margt líkt með liðinum frá fyrri umferðinni.



Andstæðingurinn: Njarðvík

Það verður að viðurkennast að eftir flotta byrjun á sumrinu hefur Njarðvík fatast flugið allsvakalega síðan þá og fyrir utan óútskýranlegan 3-0 sigur gegn Víking Ó. fyrir tveimur vikum hafa þeir tapað öllum sínum leikjum í júní og júlí. Þeir sitja í 10.sæti deildarinnar en það er aðeins á markatölu sem þeir hanga fyrir ofan fallsæti. Þeir, Afturelding og Magni eru öll með 10 stig eftir 13 umferðir spilaðar og virðast, ásamt Haukum, ætla að mynda fjögurra liða deild um hverjir fara niður í haust. Í deild þeirra næstbestu eru Njarðvík líka næstversta liðið á heimavelli. Aðeins Haukar sitja með sárara enni eftir leiki á heimavelli hingað til í sumar. Njarðvíkingar munu ugglaust vilja nota þennan leik til að reyna að koma sér aftur í gang eftir erfiðar síðustu vikur. Þeir fóru illa með okkar menn í fyrra einnig og því mætti hálfpartinn fara að tala um Njarðvíkurgrýlu ef menn drekkja henni ekki að þessu sinni.


Prskalo í beisli takk!

Lykilmenn:

Ivan Prskalo (#9) er nýr leikmaður Njarðvíkur. Hann kom til liðs við þá við opnun gluggans 1.júlí og hefur hann skorað mark að meðaltali í 4 leikjum liðsins hingað til. Hann verður að vera í gjörgæslu Bjarka og Nacho. Engin spurning. Þessi drengur er frá Bosníu og hefur verið á mála hjá stórliði Hajduk Split en síðustu ár hefur hann flakkað milli liða í efstu og næstefstu deild Króatíu. Hann skoraði bæði mörk liðsins í 2-3 tapi gegn Þrótti í síðustu umferð.

Stefán Birgir Jóhannesson (#7) hefur verið öflugur á miðjunni í liði Njarðvíkur í sumar og getur hæglega poppað upp með mörk ef menn sofna á verðinum.

Hilmar McShane er annar nýr leikmaður sem hefur styrkt hópinn á láni frá Grindavík. Hann er sonur Paul McShane sem gerði garðinn frægan fyrir Keflavík, Fram og Grindavík á sínum tíma.


Fyrri Leikir:

Við erum búin að ræða 1-2 heimatapið í maí. Gleymum því nú! Þeir tóku líka báða leikina í deild í fyrra. Annars mættust liðin fyrir 9 árum í Inkasso og þá tóku okkar menn báða leikina að ógleymdum 6-0 bikarsigri sumarið 2013. En þrír tapleikir gegn Suðurnesjamönnum í röð er eitthvað sem Leiknismenn ætla að snúa við núna og fullkomna byrjun seinni hluta mótsins fyrir stuðningsmenn og alla sem fylgja Leikni að málum.


Bönn og Meiðsli:

Hvorugt liðið er með leikmenn í banni að þessu sinni. Staðan er óbreytt með Ingó og við gerum ekki ráð fyrir honum til baka í þessum leik. Daníel Finns hefur náð sér eftir hnjaskið sem hann varð fyrir um helgina og kemur því væntanlega sprækur aftur. Þeir Stefán Árni og Árni Elvar eru tæpir en annars er hópurinn klár í slaginn. Let´s gó!


Spáin:

Það eru mörk í þessu Njarðvíkurliði en það eru fleiri mörk í okkar liði og það hefur verið á skotskónum. Við sættum okkur við eitt slysamark en skorum 2 til 3. Látum okkur duga 1-2 sigur á Rafholtsvellinum og efsta sætið í innri deild þeirra Inkasso liða sem eru ekki að fara upp og ekki að fara niður.


Leikurinn verður í beinni á Njarðvík TV en við mælum eindregið með því að leggja leið sína suður með sjó að sýna þeim grænklæddu hvernig á að styðja liðið sitt á útivelli:




67 views0 comments

Comments


bottom of page