Það er risaleikur framundan á þriðjudagskvöld á Leiknisvelli. Strákarnir okkar hafa náð að tengja 3 sigra saman og gestirnir eru fyrir löngu búnir að merkja þennan leik á dagatalið sitt sem verkefni til að leiðrétta frá fyrri umferðinni enda er Leiknir síðasta liðið sem lagði þá af velli í sumar.
Inkassódeild, 15.umferð
30.júlí, 19:15
Leiknisvelli, Austurbergi 1, Miðdepli alheimsins
Veðurspá: 18°C, léttskýjað og 7 metrar á sekúndu
24. maí síðastliðinn tapaði spútniklið Gróttu sínum síðasta knattspyrnuleik í Inkasso-deildinni. Þeir voru hreinlega löðrungaðir beint í smettið og voru í tveggja marka holu þegar 4 mínútur voru liðnar af heimaleik gegn liði Leiknis sem hafði þá tapað tveimur leikjum í röð gegn mikið minni spámönnum en Gróttu. Þeir hafa ekki gleymt þessum leik og kom það fram í útvarpsþætti Fotbolti.net á dögunum að þeir eru búnir að bíða eftir því að ná fram hefndum. Þeir hafa semsagt gert undantekningu á "einn leik í einu" klisjunni í þetta eina skipti og tökum við því sem miklu hrósi. Að sama skapi er viðbúið að gestirnir mæti dýrvitlausir í leikinn enda bjuggust þeir kannski ekki við því að 3. sæti þeirra í deildinni væri í ofanálag að veði þegar þeir mættu Leikni aftur. En það er einmitt málið. Leiknismenn mæta til leiks með kassann út, 9 stig af síðustu 9 mögulegum og tvo hreina skyldi í röð með aðeins eitt markmið í þessum leik; þrjú stig og 3. sætið.
Andstæðingurinn: Grótta er klárlega spútniklið deildarinnar í sumar. Þeir hafa fengið mikla athygli útá nýstárlegar aðferðir þar sem þeir borga engum fyrir að spila hjá félaginu og leggja heldur upp með að umgjörðin hagnist leikmönnum til framtíðar. Þeir eru nýliðar í Inkassodeildinni og hafa hingað til náð furðurlega góðum árangri. Þeir sitja nú í 3. sæti verðskuldað og margir hlutlausir eru að gæla við að þeir steli sér strax sæti í Pepsi Max deildinni. Hins vegar er erfitt að viðhalda svona mikilli gleði og stöðugleika og hafa þeir gert jafntefli í þremur af síðustu fjórum leikjum í deildinni. Ekkert lið í deildinni hefur gert fleiri jafntefli en Grótta og Leiknir er eina liðið í deildinni sem hefur ekki enn gert jafntefli. Stálin stinn semsagt. Grótta er að svo stöddu næstbesta lið deildarinnar á útivelli með 5 sigra og 1 jafntefli í 7 leikjum. Að sama skapi eru okkar menn nokkuð hlutlausir í Ghettóinu. Unnið 3 og tapað 3 með markatöluna 10-10. Risaástæða til að láta þetta vera leikinn sem ÞÚ mætir á í sumar.
Lykilmenn Gróttu:
Axel Freyr Harðarson #19 hefur verið öflugur í vörn Gróttu í sumar og mega okkar menn líka hafa hann í gjörgæslu allan daginn því hann hefur skorað heil 5 mörk.
Pétur Theódór Árnason #7 er markakóngur deildarinnar og hefur sallað inn 10 mörkum í 14 leikjum í deild og bætti við 9 mörkum í þremur bikarleikjum svo í sumar er drengurinn kominn í 19 mörk í 17 leikjum. Hann er samt ekki búinn að skora í 2 síðustu leikjum svo annað hvort er stíflan að bresta eða hann orðinn bensínlaus.
Óliver Dagur Thorlacius #29 er kominn í stuð og verið að skora uppá síðkastið fyrir Gróttumenn.
Fyrri leikir: Okkur hefur gengið vel gegn Gróttu. Á síðustu 10 árum hafa liðin mæst 7 sinnum í 1.deild og hefur Leiknir borið sigur af bítum fjórum sinnum, jafntefli hefur verið niðurstaðan tvisvar og einu sinni hefur liðið af Nesinu náð að knýja fram sigur en það eru nú orðin 8 ár síðan.
Bönn og meiðsl:
Ingó er enn frá í liði Leiknis en annars eru fjöldi leikbanna tekin út í næsta leik gegn Víkingi Ó og allir aðrir í hópnum leikfærir að mestu eða öllu leyti. Þetta er síðasti leikurinn í álagshrinu síðustu tveggja vikna og ná menn 10 daga pásu fram að næsta leik eftir þennan. Í liði Gróttu verður Arnór Þór Helgason, varnarmaðurinn mikilvægi, fjarri góðu gamni eftir beint rautt spjald gegn Þór á föstudagskvöld. Aðrir eru tiltækir.
Spáin:
Er kominn tími til að láta sig dreyma? Um helgina hefur okkar ástkæra lið fengið fullt af hrósi í umfjöllun og hlaðvörpum í íslenska fótboltaheiminum á meðan í allt sumar hefur varla verið minnst einu orði á það sem hefur verið að gerast (jafnvel gerjast) í 111. Spurning hvort þetta stígi mönnum til höfuðs í sambland við gott gengi síðustu vikur? Það eru margir boltar í loftinu og þetta er spennandi verkefni gegn öðru umtöluðu liði. Það er aukaspenna sem fylgir því að vita að andstæðingurinn kemur pirraður til leiks yfir úrslitunum sem við knúðum fram í vor. Þetta verður vonandi góður leikur og okkar menn virðast vera staðráðnir í að "verja sóknarleikinn" svo hreinn skjöldur í þriðja sinn í röð væri vel þeginn og þá myndi maður fyrirgefa fyrsta jafnteflið en við ætlum samt sem áður að veðja á að menn haldi áfram að þjarma að ungu liði Gróttumanna, setji 2 mörk og leki óvart einu. 2-1 fyrir Leikni og við getum dansað okkur inn í ágúst með bros út að eyrum.
Comments