top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Heitasta lið deildarinnar í heimsókn

Keflvíkingar mæta í Ghettóið á fimmtudagseftirmiðdag (KO 17:30) með mikinn vind í bakið en þeir eru með 12 stig af mögulegum 15 í síðustu 5 leikjum og þarmeð heitasta lið Inkasso-deildarinnar eins og er, þó ekki hafi mikið fyrir því farið í umræðunni.



Gestirnir hafa harma að hefna eftir að okkar menn löðrunguðu þá suður með sjó í júní, í fyrsta leik Sigga með alla stjórnartaum, daginn eftir að Stebbi Gísla kvaddi liðið. Það er þó engum blöðum um það að flétta að núna, rúmlega 2 mánuðum síðar, eru þetta tvö mikið breytt lið miðað við fyrri leikinn.

Inkassódeild, 20.umferð

5.sept 17:30

Leiknisvelli, Nafla alheimsins

Veðurspá: 12°C, 3 metrar á sekúndu og mögulega lítilsháttar rigning



Andstæðingurinn: Keflavík kemur inn í þennan leik undir radarnum því fáir gera sér grein fyrir því að þeir eru í besta formi deildarinnar sé litið til síðustu 5 leikja mótsins með sigrum gegn Þór, Þrótti og Víking Ó. meðal afreka þeirra. Þeir eiga enn tölfræðilegan möguleika á að vinna sér sæti í efstu deild en það þarf að verða algert hrun hjá toppliði til að það verði að veruleika. Keflavík situr í 5. sæti núna, 2 stigum á eftir okkar mönnum. Þið vitið hvað það þýðir. Ísak Óli Ólafsson, sem hefur verið lykilmaður í vörn suðurnesjamanna, fór erlendis í atvinnumennsku fyrir síðasta leik en það kom ekki að sök. Þeir söltuðu Þórsara í Keflavík og virðast vera að finna mörk út um allt í liðinu. Þetta er einfalt. Það eru nú 3 leikir eftir af sumrinu okkar og við þurfum að vinna þetta ógnarsterka lið á okkar velli til að restin af leikjunum skipti máli og krossleggja fingur fyrir sunnudaginn þegar Þór og Fjölnir mætast á Akureyri.


Lykilleikmenn:

Rúnar Þór Sigurgeirsson #24 bakvörður er búinn að vera 5 sinnum í úrvalsliði umferða í Inkasso í sumar þrátt fyrir að hafa meiðst nokkuð illa í júní og aðeins spilað í 13 leikjum hingað til. Ef hann er uppá sitt besta, verður erfitt að brjóta þá niður.

Magnús Þór Magnússon #13 er fyrirliði liðsins og búinn að vera sterkur á miðjunni í sumar.

Sindri Kristinn #1 í markinu er búinn að vera flottur milli stanganna og hefur þrisvar verið valinn í lið umferðarinnar í sumar. Eyjó! Shots fired!


Fyrri viðureignir:

Eins og áður segir, unnum við góðan sigur í rigningunni suður með sjó en það var að miklu byggt á einstaklingsklúðrum innan raða Keflvíkinga og það verður erfiðari leikur á fimmtudag að klára fyrir okkar menn. Annars þarf að fara aftur til Pepsiævintýrsins til að finna eina sigur Keflavíkinga í deild gegn okkur síðustu 10 árin. 2 sigrar fyrir okkur, 4 jafntefli og þessi eini sigur þeirra 2015. Engin grýla hér en það er mikið undir. Koma so!


Bönn og meiðsli:

Enginn í banni í hvorugu liði eftir því sem ég kemst næst og eru allir Leiknismenn klárir í bátanna nema Vuk sem er að æfa með U-19 ára landsliðinu og verður því ekki með.


Spáin:

Það er erfitt að rýna í þennan leik. Eins og áður segir eru bæði liðin á góðri siglingu og líklegt að við fáum hörkuleik en jafntefli nýtist hvorugu liði svo vonandi sjáum við sókndjarfann bolta og 3 stig fyrir stórveldið í 111. 1-0 ofan á hreina skjöldinn síðan á föstudag væri voðalega vel þegið. Sólon tekur forystuna gegn Sævari um markakóngstitil sumarsins hjá Leikni.



40 views0 comments

Comentarios


bottom of page