top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Hverfið Kallar!

Það er kominn september. Það er komið skítaveður! Það verður rigning allan leikinn á Extra-vellinum á laugardag og vindur í kringum 10 metra á sekúndu. Þetta gæti verið með ljótari knattspyrnuleikjum sem þú sérð á árinu. Ef þú ert aumingi með hor, geturðu hlussað þér á sófann og horft á þennan leik á Stöð 2 Sport. En ef þú ert sammála því að það eru forréttindi að hafa eitthvað að keppa að í september og finnst strákarnir okkar eiga skilið að fá smá meðvind, þá mætir þú í Grafarvoginn, með sem flesta fjölskyldumeðlimi með þér og gargar þig hása(-n)! Því þegar flautað verður til leiksloka á laugardag, gæti þessu öllu verið lokið þá þegar. Hverfið kallar! Svaraðu því í eitt sinn í viðbót.



Inkassódeild, 21.umferð

14.sept 14:00

Extra-vellinum (þar sem ekki er hægt að kaupa tyggjó), Grafarvogi

Veðurspá: 8°C, 11 metrar á sekúndu og rigning allan tímann



Góðir hálsar! Það er allt á suðupunkti á toppi Inkasso-deildarinnar og okkar menn hafa átt sinn þátt í því þó þeir hafi fengið að sigla nokkuð huldu höfði í þeim gjörningi hingað til. En nú er komið að því að sprengja dæmið í loft upp fyrst að Magnús Már Mosómaður náði að flengja Gróttu á nesinu í síðustu umferð! Topplið Fjölnis, sem getur ekki hætt að skora fótboltamörk, í Grafarvoginum! Það er ekki hægt að nálgast þennan leik í feluklæðunum. Bara uppúr skotgröfunum með spjótin á undan okkur. 180 mínútur eftir að sumrinu og nú skiljum við allt eftir á vellinum...og í stúkunni. Samt ekki tyggjóklessur!


Andstæðingurinn: Fjölnir

Fyrir 6 vikum voru Fjölnismenn komnir upp í Pepsi Max-deildina með langbesta liðið og ekkert gat stoppað þá. Þremur jafnteflum og loks vondu tapi í Ólafsvík síðar, þurftu menn að spýta í lófana og klára verkefnið ef þeir ætluðu ekki að enda eins og Þór Akureyri í ruglinu. Það gerðu þeir. Fjölnismenn tóku Þróttara af lífi á Extra-vellinum með 6-0 sigri og mættu svo Þórsurum einmitt á Akureyri og settu 7 mörk á þá! Nú standa þér virkilega vel á toppnum og þeim myndi duga jafntefli gegn Leikni til að tryggja sig endanlega upp í deild þeirra bestu. Það væri vel þegið að þeir tæku því rólega og við gætum stolið sigri en líklegra verður að teljast að þeir séu komnir í stuð og vilji negla sæti sitt niður með því að afhenda okkur Leiknismönnum okkar fyrsta ósigur í seinni umferðinni.


Lykilleikmenn:

Albert Ingason #14 er búinn að vera aðalgæinn í liðinu í sumar. Markahæstur með 9 mörk og mikilvægur í öllu spili liðsins. Hann hefur leikið okkur grátt áður og mun gera aftur ef við gefum honum þumlung eftir. Rasmus Christiansen #23 er yfirburðarvarnarmaður í þessari deild og virðist á köflum geta sinnt forritunarvinnu hjá Origo á sama tíma og hann er að taka sóknir andstæðinganna úr sambandi með Sólheimaglotti. Hann þarf að vera illa fyrirkallaður til þess að Fjölnir tapi stigum. Það er bara þannig. En félagar hans, fyrirliðinn Bergsveinn og Sigurpáll eru í banni í þessum leik. Það gæti hjálpað leiknum leikmönnum okkar að hrella Rasmus aðeins. Annars eru gæði alls staðar í þessu liði og á pappír erum við búin að tapa þessum leik.



Fyrri viðureignir:

Harðir Leiknismenn muna eftir nokkrum tilfellum þar sem þetta gulklædda lið hefur svipt okkur draumum okkar um að spila í hærri vigtarflokki. Þeir hafa vinninginn þar og sigruðu okkur örugglega í hverfinu okkar 0-2 í júlíbyrjun. Það skiptir ekki máli í dag og síðustu 10 ár skulum við ekkert spá meira í að sinni. Þetta er okkar tækifæri til að snúa sögunni svolítið okkur í hag.


Bönn og meiðsli:

Allir klárir hjá okkur og enginn nokkurn tíma að láta spjalda sig. Það er liðin tíð. Eins og áður segir eru þeir Bergsveinn og Sigurpáll í banni hjá gestgjöfunum og við vonum að það hamli þeim bara heilmikið.


Spáin:

Það myndi skjóta skökku við að blása í herlúðra hér að ofan og setja svo skottið milli lappana í niðurlagi upphitunarinnar. Þetta er búið að vera stórflott tímabil hjá okkar mönnum hingað til og klár stígandi í öllu því sem Siggi og strákarnir eru að gera. Nú er komið að ögurstundu að hrifsa eitthvað af öðrum og þá mætir maður ekki með háttvísina að vopni. Þetta verður 1-2 fyrir okkur og mark Fjölnis verður bara smá sárabót í lok leiks. Eyjó og strákarnir eru búnir að loka markinu og það eru mörk í öllum hinum á vellinum. Sævar úr víti og Gyrðir með skalla úr horni. Grótta vinnur í Njarðvík en þetta verður allavega ekki búið þessa helgi.


Við erum innan við 10.000 manns í þessu póstnúmeri núna en það eru mikið fleiri sem stoltir stæra sig af því að vera úr "hverfinu" þó þeir búi hér ei lengur. Það abbast enginn uppá okkur. Nú er tíminn til að sýna hvað maður er grjótharður með því að mæta í storminn í Grafarvoginum. Ef þetta er eitthvað erfiður pakki fyrir þig, taktu þá sundskýlu og handklæði með þér og skelltu þér í sund eftir átökin. Fínasta aðstaða. Engin Breiðholtslaug en skítsæmileg eftirlíking. Koma svoooooooo!


96 views0 comments

Comments


bottom of page