top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Laugardalur á föstudagskvöldið

Þróttarar verða heimsóttir á gervigrasiðí Laugardal á föstudagskvöldið í 6. umferð Inkassó-deildarinnar.


 

Inkassódeild, 6.umferð

7.júní, 19:15

Eimskipsvöllur, Laugardal

Veðurspá: Léttur andvari, léttskýjað og 13°C




Eftir virkilega flottan leik hjá Leiknismönnum síðustu helgi gegn Ólsurum er komið að því að heimsækja Þróttara sem hafa ekki byrjað eins vel og þeir hefðu vonast til. Þeir dúsa í 9. sætinu með 4 stig eftir fyrstu 5 umferðirnar á meðan okkar menn eru komnir í 4. sætið. Með sigri gæti Leiknir verið komnir í 2.sætið og með tapi gæti Þróttur verið að stimpla sig í fallsæti um helgina. Það eru því gerólíkar áherslur hjá liðunum á leiðinni inn í þennan leik.


Okkar menn vilja væntanlega negla niður aðra frammistöðu eins og síðustu viku þar sem flott varnarvinna skilaði hreinu laki og sóknarleikurinn var hættulegur og skilaði tveimur mörkum. Að halda vinnuframlaginu eins og vanmeta andstæðinginn ekki, ætti að skila okkur heim í Breiðholtið með 3 stig í pokanum.


Fyrstu 5 leikir Þróttara

Heimamenn þurfa hins vegar að þjappa sér saman og hætta að leka mörkum. Það verður vonandi erfitt gegn öllum valkostunum sem búa í okkar liði. Þróttarar eru sjálfir að skora ágætlega og eru í 4. efsta sæti í mörkum skoruðum en aðeins Magni og Afturelding eru að leka fleiri mörkum hingað til.


Ágúst Leó Björnsson er hættulegasti sóknarmaður Þróttara með 3 mörk í fyrstu 5 umferðunum. Hann klæðist treyju númer 88 fyrir þá sem vilja hafa hann í gjörgæslu úr stúkunni. Jasper Van Der Heyden ( í treyju #11) byrjar tímabilið líka sprækur með 3 mörk í deild og bikar. Archange Nkumum (#25) er annar leikmaður sem vert er að fylgjast með. Hann er kominn hokinn af Pepsi-reynslu frá KA-mönnum. Þess má geta að hann er sá leikmaður sem varð fyrir kynþáttafordómum Björgvins Stefánssonar sem er nú úr umferð fram í lok júlímánaðar.


Þróttur Reykjavík er félag með metnað sem hefur ekki alltaf tekist að virkja nógu vel. Þeir hafa verið hálfgert jójó-lið upp og niður úr Pepsideild og ekki tekist að festa sig í sessi meðal þeirra bestu þó að aðstæður sé eins og best verður á kosið í Laugardalnum. Þeir státa til dæmis af yfirbyggðri stúku á heimavelli. Það er ekkert slor þó það sé ekki mikil not fyrir það þessa dagana. Spáin er mjög góð fyrir leikinn og því tilvalið að mæta klukkutíma fyrir leik í veitingatjaldið og njóta samveru með gestrisnum Kötturum fyrir skemmtilegan leik sem endar ólíklega með markalausu jafntefli.



Í hóp Leiknis vantar Hjalta Sigurðsson sem er með U-21 landsliðinu en annars er okkur ekki kunnugt um önnur meiðsli eða bönn í hópi Stebba Gísla. Kristján Páll ætti að vera líklegur til að taka pláss hans í hægri bakverði en svo má guð vita hvað annað stjórinn gerir. Það hefur verið að virka upp á síðkastið svo við bíðum bara spennt og treystum á hann og strákana.


Viðtal Leiknissíðunnar á Facebook við stjórann í vikunni:


52 views0 comments

Comments


bottom of page