Á þriðjudagskvöld rúllar seinni hálfleikur sumarsins af stað með heimsókn Mosfellinga í Aftureldingu á Leiknisvöll. Okkar menn eiga harma að hefna síðan í vor og verður öllu tjaldað til að byrja að klifra upp töfluna aftur og dæma nýliðana enn fastar í fallsæti.
Inkassódeild, 12.umferð
16.júlí, 19:15
Leiknisvöllur, Austurbergi, Breiðholti, Miðdepli alheimsins.
Veðurspá: Rigning, logn og 17°C
Andstæðingurinn: Afturelding
Nýliðarnir úr Mosfellsbæ eru í öðru fallsætinu en eru hvergi nærri hættir og hafa átt nokkra spennandi leiki. Líkt og Leiknir horfa þeir örugglega á fyrri helming tímabilsins sem lærdóm og ætla að snúa tapleikjum í jafntefli og jafnteflum í sigra á seinni hlutanum. Þeir sigruðu okkar menn í 2. umferð og hafa svo sigrað Magna og Njarðvík og náðu svo jafntefli gegn Þrótturum í síðasta leik. Hinum leikjunum hafa þeir tapað. Þeir koma inn í þennan leik með 4 stig af síðustu mögulega 15 á meðan okkar menn hafa náð sér í 6 stykki stig. Að meðaltali eru Mosfellingar að leka inn rúmlega 2 mörkum í leik á meðan þeir hafa skorað í öllum nema 3 leikjum sínum. Fyrir helgi sendu þeir meiðslum hrjáðan Brassa úr landi og tóku inn spánskan varnarmann í staðinn. Hann ætti að koma inn í liðið strax. Það eru því þreifingar í gangi hjá gestunum og þeir eru hvergi nærri hættir baráttunni um að halda sér í Inkasso-ástríðunni, enda ekki nema 1 stig í öruggt sæti í deildinni fyrir þá. Væmnasti þjálfari deildarinnar, Arnar Hallsson, stendur á hliðarlínunni og reynir að kortleggja tvennuna yfir Breiðhyltingum með dyggri aðstoð Leiknismannsins Magnúsar Más Einarsson.
Lykilleikmenn:
Það er varla hægt að segja að einn eða tveir leikmenn hafi stigið upp sem lykilleikmenn í hópnum. Þeir hafa ekki styrkt hópinn mikið frá 2. deild í fyrra en treysta á unga og efnilega leikmenn og kunna sannir Leiknismenn að meta þá aðferð enda vantar bara herslumuninn uppá að þeir séu byrjaðir að klifra upp töfluna. Liðið er lykilmaðurinn hér.
Fyrri Leikir:
Martröðin í Mosó 10.maí er okkur í fersku minni þar sem Ingó fékk á sig hart rautt spjald og Mosfellingar náðu að landa 3 stigum. Það má ekki endurtaka sig enda viljum við meina að okkar menn séu komnir á miklu betri stað en þeir voru í byrjun sumars. Annars eru 10 ár frá því að liðin mættust síðast í deild sumarið 2009 og þá unnum við Leiknismenn heimasigur og gerðum jafntefli í Mosó.
Bönn og meiðsli:
Að sögn Sigga þjálfara er Ingó eini maðurinn sem er pottþétt frá vegna meiðsla í þessum leik en aðrir sem duttu út í síðasta leik ættu að vera klárir í slaginn. Enginn í banni okkar megin en það er spurning hvort Loic Ondo í vörn Mosfellinga sé í banni vegna uppsafnaðra spjalda.
Spáin:
Vörn gestanna er hriplek og hefur ekkert skánað. Ef dómari leiksins hefur ekkert á móti því að við skorum 3 þá gerum við það en líklega ná Mosfellingar að hlaða í eitt sárabótamark um miðjan seinni hálfleik. Þetta er tækifæri fyrir lærisveina Sigga að setja tóninn fyrir restina af tímabilinu og spennandi road trip til Grenivíkur um helgina. Vuk, Bjarki og Sævar Atli með mörkin. Takk fyrir pent. En veðurkallarnir spá rigningu í góðum hita svo ykkur er hérmeð skipað að henda svörtum plastpoka yfir ykkur og mæta í stúkuna að styðja strákana!
Comments