top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Magni í Grenivík

Það er komið að fyrsta alvöruferðalagi sumarsins fyrir Leiknisfólk þegar við mætum mögnuðum Magnamönnum í Grenivík á laugardag. Leikurinn verður flautaður á klukkan 16:00 svo það þarf ekkert að fórna laugardagslúrnum fyrir rúntinn norður. Giddýup! Allir norður.



Inkassódeild, 13.umferð

20.júlí, 16:00

Grenivík

Veðurspá: Rigning, logn og 14°C

Í beinni á MagniTV (ef þú ert aumingi sem situr heima)



Leiknismenn mæta hressir til leiks eftir góðan hefndarsigur gegn Aftureldingu í Breiðholtinu fyrr í vikunni. Sóknin var uppá sitt besta þar en varnarleikurinn ennþá einhvers staðar allt annars staðar. Hins vegar eru heimamenn örugglega í fullu starfi við að halda sér á jörðinni eftir að hafa hirt 1 stig síðustu helgi gegn Þórsurum og svo skelltu þeir sér á hvorki meira né minna en stórsigur 0-3 á útivelli gegn Keflavík á þriðjudag. Þetta verður ekki gefins frekar en fyrri daginn í Grenivík á laugardagseftirmiðdag.


Andstæðingurinn: Magni

Þeir sitja, eins og flestir bjuggust við, í neðsta sæti deildarinnar og fram að síðasta þriðjudagskvöldi var þeim fyrirmunað að ná í stig nema heima í Grenivík. Það er því allt annað og óútreiknanlegra lið en áður sem við erum að fara að mæta í þessum leik. Í fyrsta leik Inkasso í vor náðu okkar menn að flengja þá með 4-1 sigri á gervigrasinu í Austurbergi en eins og svo oft áður eru Magnamenn enn að hóa í lið með lánsmönnum osfrv þegar flautað er til leiks á vorinn og því væru mikil mistök að mæta þeim núna af einhverri léttúð og halda að það sé hægt að vaða yfir þá í þeirra eigin bakgarði á miðju tímabili, hvað þá eftir sterkan sigur suður með sjó. Að því sögðu er það samdóma álit allra í deildinni að um er að ræða lakasta lið deildarinnar og því gefur augaleið að stórveldið í Breiðholti eigi að sækja 3 stig norður, með ráðum og dáðum. 1-0 eins og í fyrra dugir okkur en það væri kannski fínt að skora tvö því það er ólíklegt að Leiknir haldi hreinu.


Lykilleikmenn: Gunnar Örvar Stefánsson er sem fyrr þeirra sterkasta ógn í sókninni með 5 mörk hingað til, eitt af þeim einmitt gegn okkur í vor. Hann var frá í stórsigrinum á þriðjudag og kemur því líklega dýrvitlaus inn í stemninguna hjá Grenivíkurmönnum ef meiðsli hans eru ekki þrálát. Kristinn Þór Rósbergsson hefur líka verið að láta til sín taka í markaskorun svo það verður að fylgjast með honum. Reyndar þarf mögulega að fara að sætta sig við að það sé líka einhver í vörninni hjá Magna sem þarf að forðast líka þar sem styttra er síðan þeir héldur hreinu en við. Það getur greinilega allt gerst í Grenivík á laugardag.


Gunnar Örvar er stór, stæðilegur og líklegur til vandræða.

Fyrri leikir: Við tókum þá eins og áður segir 4-1 í vor og sóttum 1-0 sigur til þeirra í fyrrasumar eftir að hafa tekið þá 3-1 í Breiðholti. Annars unnu þeir okkur í Lengjubikar í mars á þessu ári. Það voru ekki fleiri leikir sem þkessi lið hafa mæst í sögu félaganna þó að mikill vinskapur sé með liðunum strax.


Bönn og meiðsli:

Engin bönn hjá liðunum tveimur. Ingó er líklega enn frá hjá okkur og Vuk fór meiddur af velli á þriðjudag. Ef hann tekur þátt á laugardag verður það líklega ekki nema af bekknum ef með þarf. Gunnar Örvar virðist hafa verið frá vegna meiðsla í sigri Magnamanna á þriðjudag svo hann gæti mögulega enn verið frá. Þetta er ekki faglegasti dálkur upphitananna hjá mér, því miður. En hey! Geri aðrir betur.


Spáin:

Þetta er Grenivík, já. En við erum Leiknir og þessi Grenivíkurgrýla er hálfgerður tilbúningur útfrá því að þeim virðist fyrirmunað að ná í stig á útivelli frekar en að þeir séu ósigrandi á heimavelli. Við erum með sterkan hóp skemmtilegra leikmanna og gerum einfaldlega kröfu um að vinna þennan leik. Til þess að það verði, held ég að allir geri sér grein fyrir að 1 mark dugi ekki til. Segjum því 2-3 í skemmtilegum leik og megi endurreisn vina okkar í Magna fara á fullt aftur eftir helgi.


ALLIR NORÐUR!


46 views0 comments

Comments


bottom of page