Á föstudagskvöld kl 19:15 heimsækja Njarðvíkingar Leiknisvöll í 3.umferð Inkasso-deildarinnar. Þeir tóku öll 6 stigin gegn okkur í fyrra og það má ekki gerast aftur. Það er svo einfalt.
Inkassódeild, 3.umferð
17.maí, 19:15
Leiknisvöllur (GRASVÖLLURINN), Breiðholti
Veðurspá: Logn, rigning og 10°C
Eins og okkur hefur verið tíðrætt um á Leiknir "auðvelt" prógram í byrjun tímabils og því voru það mikil vonbrigði að tapa strax í 2. umferð gegn Aftureldingu síðasta föstudag. Það verður hins vegar mikið bakslag ef Njarðvíkingar sigra okkur á heimavelli svona snemma tímabils, annað árið í röð. Þá má segja að markmið liðsins um að sigla lygnan sjó í eftir hluta deildarinnar séu komin í bráða lífshættu þó nóg sé eftir af tímabilinu. Njarðvíkurmönnum var spáð ströggli í vor og samkvæmt spám verða þeir í síðasta örugga sæti deildarinnar þegar stigin eru talin í haust. En eftir vandræðagang okkar manna síðasta föstudag verður ekkert rúm fyrir vanmat og alger skylda að gestirnir fari suður með sjó með 0 stig með sér.
Njarðvík mætti sterkum Þrótturum í 1.umferð Inkasso og tóku öll stigin þar með sér heim í 2-3 sigri. Þeir töpuðu svo á heimavelli síðustu helgi gegn Þór Akureyri sem er af flestum talið langbesta lið deildarinnar, 0-2. Liðin sem mætast á Leiknisvelli á föstudagskvöld eru því að koma úr ólíkum áttum hvað varðar gæði andstæðinga. Verkefni strákanna okkar verður að láta gestina finna fyrir því að þeir séu að mæta enn einu toppliði í deildinni, en ekki einum af auðveldari andstæðingunum.
Stefán Birgir Jóhannesson klæðist treyju númer 7 í liði Njarðvíkur og var valinn leikmaður 1. umferðar í Inkasso. Hann lék fyrir Leikni sumarið 2013. Passið uppá hann strákar!
Í liði Leiknis er Ingólfur Sigurðsson í banni eftir rautt spjald gegn Aftureldingu. Vuk er líklegur til að koma inn í hans stað. Ósvald Jarl kom inná í hálfleik og ætti því að vera fullfær í vinstri bak á kostnað Edda. Annars eru allir aðrir heilir eftir því sem við komumst næst.
Leiknisljónahittingurinn hefst 17:00 þegar Gísli liðsstjóri opnar salinn. Nú er um að gera að mæta á völlinn, hita vel upp og láta svo til sín taka í stúkunni. Keyrum þetta í gang Leiknisljón!
#Inkasso-ástríðan
Kommentare