top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: "Sunny" KEF á fimmtudagskveldi

9.umferð Inkassodeildarinnar heldur áfram þegar okkar menn mæta galvaskir í Bítlabæinn með það ætlunarverk að hrifsa stigin af sterku Keflavíkurliði á fimmtudagskvöld.



Inkassódeild, 9.umferð

27.júní, 19:15

Nettóvöllur, Keflavík

Veðurspá: Rigning, gola og 11°C



Okkar menn mæta sterku liði Keflvíkinga suður með sjó á fimmtudagskvöld kl 19:15. Eftir karaktersigur gegn Haukum síðasta fimmtudag eru okkar menn í fyrsta sinn tvo leiki í röð á útivelli þetta sumarið og væntingarnar eru að við gætum komið á óvart en það er lítil pressa á liðinu í þetta sinn.


Keflvíkingar voru í Pepsi í fyrra en aðeins að nafninu til. Það fann enginn fyrir þeim þar. Þeir töpuðu öllum nema 4 leikjum í deildinni og þeir leikir voru allir jafntefli. Mikil niðurlæging fyrir stolt bæjarfélag. Margir leikmenn fóru frá liðinu en þjálfarinn hélt sæti sínu og hefur endurbyggingin byrjað jákvætt í Inkasso.


Andstæðingurinn: Keflavík

Liðið mætir ákveðið til leiks í Inkasso þetta árið með enga pressu og var þeim spáð 3. sæti deildarinnar í vor. Þar sitja þeir núna eftir 8 umferðir. Þeir byrjuðu á 3 sterkum sigrum í upphafi tímabils en hafa sýnt bilbug á sér með heimatöpum gegn Gróttu og Þrótti á meðan þeir hafa verið nokkuð sterkir gegn andstæðingum sínum við toppinn. Keflavík byggir leik sinn frá vörninni þar sem Ísak Óli Ólafsson er búinn að halda hreinu í helmingi deildarleikja hingað til. Hann er orðaður við atvinnumennsku í glugganum svo þetta gæti verið síðasti sjéns í bili til að hitta hann fyrir á vellinum hér á klakanum. Það er fín ógn af Keflavíkurliðinu framávið líka en þeir eru með jafnmörg mörk og Leiknir eða 13 talsins hingað til.


Adam Árni verður skeinuhættur

Lykilleikmenn:

Adam Árni Róbertsson (#9) er kominn með 5 mörk hingað til og verður að teljast helsta ógn heimamanna á fimmtudagskvöld. Ísak Óli (#4) verður hjarta varnarinnar eins og áður segir og svo hefur Rúnar Þór Sigurgeirsson byrjað tímabilið af krafti og valinn í lið umferðarinnar í fyrstu 3 umferðum tímabilsins en hann meiddist undir lok maí og hefur ekkert spilað síðan. Ekkert að frétta af honum enn um sinn. Hann þarf að setja í gjörgæslu ef hann skyldi poppa upp fyrirvaralaust á fimmtudag.


Fyrri leikir:

Liðin hafa mæst aðeins 6 sinnum síðustu 10 árin í deild. Góðu fréttirnar eru að Leiknismenn unnu í síðasta leik þeirra suður með sjó 1-2 sumarið 2017. Vondu fréttirnar eru að báðir markaskorararnir þá eru farnir, þeir Ingvar Ásbjörn og Tómas Óli. Í heild erum við að tala um einn sigur á hvort liðið og 4 jafntefli á milli þessara liða.


Bönn og meiðsli:

Enginn Leiknismaður í banni en því miður eru þeir Árni Elvar og Stefán Árni frá í bili. Ingó á að vera orðinn leikfær og Nacho Heras er staðfest tilbúinn að taka sæti sitt aftur í vörninni.


Spáin:

Það er erfitt að giska á hverju Stebbi Gísla tekur uppá eftir síðustu umferðir. Hvort hann haldi sig við tíguluppstillingu síðasta leiks sem gekk vel eftir smá upphafshikst eða haldi áfram að róta í leikkerfum og leikmannavali. Keflvíkingar geta tekið toppsæti deildarinnar með sigri þar sem Fjölnir og Þór mætast í sömu umferð. Með sigri og hagnýtum úrslitum annars staðar gætu okkar menn farið úr 7. sæti í það 4. en staðan í deildinni er ekki aðalatriðið. Sigur á öðru svona sterku liði og að skera sig frá neðri hlutanum er næg gulrót til að kýla á þetta í Keflavík. Það hefur allavega sýnt sig að okkar menn hafa ekki átt í vandræðum með að peppa sig fyrir þessi stærri lið í deildinni og ættum við því að sjá þá gefa heimamönnum leik. Ef út í það er farið þurfum við að virða fyrsta jafntefli sumarsins ef svo færi á endanum en það er auðvitað virðingarvert að mæta í alla leiki með sigur á heilanum. Ég spái þó að þetta verði tíðindalítið í leiðindaveðri og endi með 1-1 jafntefli.


Yfirbyggð stúka nýtist vel í rigningunni og til að varpa fram stuðningshrópum. ROAD TRIP!

53 views0 comments

Comments


bottom of page