top of page
Writer's pictureLjón

Upphitun: Víkingur Ó. í heimsókn á föstudagskvöld

Á föstudagskvöld mæta Víkingar frá Ólafsvík í heimsókn á Leiknisvöll og við má búast hörkurimmu í sólinni.



Inkassódeild, 5.umferð

31.maí, 19:00

Leiknisvöllur

Veðurspá: Léttur andvari, léttskýjað og 12°C

Í BEINNI ÚTSENDINGU á Stöð 2 Sport


Þetta er RISA! Heimaleikur gegn sigurstranglegum lærisveinum hins ódrepandi Ejub Purisevic. Það er heilmikil gagnkvæm virðing milli félaganna en á föstudagskvöld munu leikmenn mæta til leiks kokhraustir og klárir í hörkuviðureign alls staðar á vellinum. Undirritaður gæti vart verið spenntari. Ekki endilega útaf stöðutöflunni fyrir og eftir leik heldur meira vegna þess að þetta verður raunveruleg prófraun fyrir leikmenn Leiknis gegn alvöru Pepsi-kaliber andstæðingi. Það skyldi þó aldrei vera að hópurinn okkar henti betur í spili gegn efri liðum deildarinnar en þeim sem spáð er brösugu gengi?


Eins og flestir áhugamenn um knattspyrnu á Íslandi vita er Víkingsliðið lið Ejub Purisevic. Það er enginn stærri en þjálfarinn í þessu félagi. Hann virðist hafa einstakt lag á því að henda í hörkulið kortéri fyrir mót ár eftir ár. Það er flestir löngu hættir af afskrifa lið undir hans stjórn og þetta sumar er engin undantekning. Þeir hafa farið vel af stað í Ólafsvík þetta árið og hafa unnið þrjá af fyrstu 4 leikjunum með því að leka aðeins einu marki. Þeir gerðu markalaust jafntefli við Hauka í 2. umferð sem verður að teljast lakasti andstæðingurinn þeirra til þessa. Þeir hafa unnið Gróttu, Þrótt og Þór Akureyri hingað til.


Staðan í deildinni fyrir leik.

Það er samdóma álit manna að lykilmaðurinn inni á leikvellinum fyrir Víkingana sé Emir Dokara, fyrirliði og miðvörður liðsins. Hann er fastur punktur í liði sem breytist alltaf töluvert milli ára og Ejub finnst best að púsla liðum sínum saman útfrá sterkum varnarleik fyrst og fremst. Hvað ógnir framávið varðar frá gestunum þá eru það þeir Harley Willard og James Dale sem skora mörkin...bókstaflega. Í Inkasso hafa Víkingar skorað 6 mörk og þeir tveir hafa skipt þeim milli sín. Þeir komu báðir til félagsins fyrir þetta tímabil og hafa greinilega smellpassað í fyrirkomulag Ejubs frá fyrsta degi. Þéttur varnarleikur og hraðar skyndisóknir.


Það verður stytta reist í Ólafsvík af þessu manni þegar hann kallar þetta gott.

Það er erfitt fyrir áhugamann eins og mig að sjá fyrir sér töflufund sem okkar menn meðtaka og negla svo 3 stigin af öryggi en það er þess vegna sem ég er að pikka á tölvu heima hjá mér og Stebbi Gísla er með strákana klára í slaginn í Austurbergi 1. Það er fyrirséð að við töpum þessum leik ef varnarleikur okkar manna er ekki stórbættur í þessum leik. Þeir hafa enn ekki haldið hreinu og í raun ekki verið nálægt því. Það er líklegt að ef allt fer á versta veg verði það af því að þau vandamál loði enn við liðið. Miðað við það hvernig nálgunin breyttist verulega milli síðasta leiks og leiksins á undan er best að maður fabúleri sem minnst um líklega uppstillingu og treysti því að þeir sem fá borgað fyrir að taka ákvarðanir, geri það. Ég leyfi mér svo að dæma eftirá ef ykkur er sama ;)


Eins og kom fram í upphitun fyrir leikinn á heimasíðu félagsins hafa Víkingarnir oftar haft betur í baráttunni við Leikni en það hefur núll að segja á vellinum á föstudagskvöld. Það er nokkur tenging milli félaganna en sú nærtækasta er að hinn geðþekki Nacho Heras, sem kom til liðs við Leikni í vor, var tvö síðustu sumur í vörn Ejubs. Hann ætti vonandi að hafa gefið Stebba og strákunum innsýn í einhverja mögulega veikleika. Ingólfur Sig okkar spilaði fyrir Víkingana sumarið 2015 svo hann þekkir líka til Ejubs frá fyrri tíð og síðast en ekki síst er hinn snælduvitlausi framkvæmdastjóri Leiknis og midfield maestro þeirra KB-manna, Helgi Óttar Hafsteinsson fyrrverandi leikmaður Víkings Ólafsvík. Hann spilaði þrjú tímabil í Ólafsvík árin 2010-2012.


Þó að leikurinn verði í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport er það ætlað sem eftiráskemmtun inni í stofu eftir frábært kvöld í faðmi Leiknisfjölskyldunnar á sjálfum vellinum. Upphitun í salarkynnum Leiknis hefst klukkan 17:00 og ekki gleyma að boltanum verður sparkað af stað klukkan 19:00 en ekki stundarfjórðungi síðar eins og hefur verið venjan síðustu helgar.



100 views0 comments

Comments


bottom of page