Það er komið að laugardagsleik í Breiðholtinu aftur og að þessu sinni mæta Þórsarar frá Akureyri í heimsókn. Þetta verður hörkurleikur um stigin þrjú.
Inkassódeild, 7.umferð
15.júní, 16:00 (Ljónahittingur frá 14:00)
Leiknisvöllur
Veðurspá: Léttskýjað, logn og 17°C
Eftir vonda útreið í Laugardalnum um síðustu helgi mæta okkar menn Norðanmönnum á Leiknisvelli á laugardaginn og það getur hvað sem er gerst.
7. umferð Inkassodeildarinnar er lokið fyrir utan þennan leik og því ljóst hverjar afleiðingar leiksins verða. Þórsarar gætu tyllt sér á toppinn með sigri en okkar menn stefna auðvitað á að færast uppúr 8.sæti í það 4. með því að taka öll stigin.
Andstæðingurinn: Þór Akureyri
Þórsarar eru með ákaflega sterkt lið sem var í vor spáð 2.sæti deildarinnar og þeir virðast vera að standa undir þeim væntingum í upphafi móts. Þeir hafa skorað næsta mest í deildinni og fengið á sig næstfæst mörk hingað til. Eins og Leiknir eru þeir slappir í að deila stigunum með andstæðingunum. Þeir annað hvort vinna eða tapa leikjum sínum. Þetta yrði fyrsta jafntefli beggja liða ef leikar enda þannig á laugardag. Það er Pepsihugur í Þorpurum á Akureyri og hafa þeir náð að halda í flesta lykilmenn síðasta tímabils án þess að rugga bátnum mikið fyrir þetta tímabil. Það er óvenjulegt fyrir Inkassolið að hafa svona litla hreyfingu á leikmannahópi. Gregg Ryder var ráðinn þjálfari liðsins eftir að Lárus Orri hætti eftir síðasta tímabil.
"Það verður ekki laugardagsleikur í 111 aftur fyrr en í síðustu umferðinni seinni partinn í september."
Lykilleikmenn:
Spánverjarnir Alvaro Montejo (#24) í framlínunni og Nacho Gil (#88) á miðjunni eru hjartsláttur liðsins. Þeir hafa saman skorað 8 mörk af þeim 12 sem Akureyringarnir hafa skorað í Inkassodeildinni og okkar Nacho og Bjarki verða að vera vel vakandi ef þeir eiga ekki að ná að bæta við reikninga sína í Breiðholtinu.
Fyrri leikir:
Eins og kom fram á upphitun félagssíðunnar hafa Þórsarar haft nokkra yfirburði í rimmum liðanna síðustu ár og í raun alla tíð. Á síðasta tímabili tóku þeir tvennuna yfir okkar menn og það verður lagfært í sumar.
Bönn og meiðsli:
Enginn leikmaður Leiknis verður í banni í leiknum og enginn leikmaður er frá vegna meiðsla eftir því sem við komumst næst. Lúxusvandamálið á miðjunni allavega heldur því áfram fyrir Stebba Gísla. Hverjir fá vaktina á laugardag?
Spáin:
Tapleikir Þórs hafa komið gegn Víking Ó. og Gróttu, lið sem Leiknismenn áttu ekki í miklum vandræðum með að sigra. Þessi deild er með sanni holdgervingur klisjunnar um að allir geti sigrað alla, alltaf. En tap okkar manna gegn Þrótti síðustu helgi var mikill skellur fyrir vonir okkar um stöðugleika í sumar á meðan Akureyringarnir mæta til leiks eftir tvo sterka sigra gegn Þrótti og Haukum án þess að fá á sig mark.
Það má því búast við því að leikmenn og stuðningsmenn Leiknis þurfi að sýna þolinmæði þegar kemur að því að bíða eftir mörkunum á laugardag og vörn okkar manna þarf að vera verulega þétt fyrstu mínúturnar til að standast áhlaup sterkra gestanna. En líkt og Strákarnir Okkar í landsliðinu virðast okkar menn kunna best við sig gegn sterku liðunum í deildinni á meðan formúlan um það hvernig á að hrista af sér miðjuliðin er ekki enn fundin. Það má því búast við hörkuleik í blíðunni í Breiðholti og við krossleggjum fingur í von um 2-1 sigur þar sem gestirnir ná að klóra í bakkann í lok leiks eftir að staðan hefur verið 0-0 í hálfleik.
Við minnum alla á að mæta á Leiknisljónahittinginn í félagsheimilinu, og fyrir utan það, fyrir leik. Það verður bongóblíða og bjór á barnum og það verður ekki laugardagsleikur í 111 aftur fyrr en í síðustu umferðinni seinni partinn í september. Það gerist ekki betra en í aðdraganda mikilvægs leiks þegar fyrsti þriðjungur mótsins er að renna sitt skeið. Fjölmennum á völlinn og styðjum strákana.
Áfram LEIKNIR!
Comments