Þór Akureyri stefnir hraðbyr að Pepsi Max deild að ári en drengirnir úr Ghettóinu ætla að henda þeim plönum í uppnám með sigri norðan heiða um helgina. Síðasta #RoadTrip sumarsins er framundan á laugardag.
Inkassódeild, 18.umferð
24.ágúst 16:00
Þórsvelli, Akureyri
Veðurspá: 13°C, skýjað, logn og mögulega nokkrir regndropar
Okkar menn eru í besta 5 leikja formi deildarinnar og koma ferskir til leiks með ómeiddan hóp og aðeins besta mann liðsins um þessar mundir í banni. Þetta þýðir að Leiknir er komið til að spilla fyrir hinum og halda sér í umræðunni um að spila meðal þeirra bestu á næsta tímabili. Tapist þessi leikur er ljóst að Þórsarar séu byrjaðir að leggja fingur á sæti í efstu deild að ári. Þarf ég að stafa þetta fyrir ykkur? RISASLAGUR í AK City á laugardagseftirmiðdag. Hendið ykkur uppí bíl og mætið með Leiknisljónunum í stúkuna.
Andstæðingurinn: Þór Akureyri
Þórsarar eru eitt af tveimur liðum í Inkasso sem mættu til leiks í vor með yfirlýst markmið um að fara upp um deild og spila meðal þeirra bestu næsta sumar. Þeir hafa verið í efstu tveimur sætunum meira og minna í sumar þrátt fyrir skakkaföll og stefnir allt í að þeir nái þessu markmiði. Þeir eru með öflugt lið og lykilleikmenn mættir aftur á besta tíma í flottu formi til að klára verkefnið. Þór hefur ekki tapað leik síðan í júní og var það gegn toppliði Fjölnis á útivelli. Þeir hafa hins vegar verið að detta í nokkuð af jafnteflum upp á síðkastið og gerðu meira að segja jafntefli á heimavelli gegn heillum horfnum Haukum í síðustu viku. Það ætti að gefa okkar mönnum von. Þórsarar eru með næstbestu vörn deildarinnar á eftir VíkingÓ en 5. bestu sóknina. Það er þó smá villandi því stormsenterinn lenti í meiðslum og því fengu þeir eitt stykki svoleiðis í viðbót að láni frá Víkingum R. og eru nú með þá báða í byrjunarliði. Þetta verður skemmtileg rimma fyrir strákana okkar sem eru búnir að leiðrétta alls konar kvilla í sínum leik frá því að liðin mættust síðast. En dugir það til gegn liði sem er á pappír einfaldlega betra en okkar? Eins og fyrirliði gestgjafanna bendir á í viðtalinu að ofan, þá er toppbaráttan búin hjá okkur ef við vinnum þennan leik ekki.
Lykilmenn Þórs:
Alvaro Montejo #24 er yfirburðarsóknarmaður í þessari deild. Það er bara þannig. Hann er kominn með 8 mörk í 13 leikjum en hann lenti í meiðslum sem slógu hann aðeins út af laginu um mitt tímabil. Hann er kominn aftur í stuð og vinur hans Nacho Heras skal gjöra svo vel að fokka hressilega í honum ef við eigum að eiga sjéns.
Rick Ten Voorde #27 kom í glugganum að láni frá Víking og hefur slegið í gegn í framlínunni líka. 5 mörk í 7 leikjum. Bjarki verður þá að stúta honum.
Dino Garvic #23 hefur leitt vörn Þórsara í sumar og verður lykill þeirra að því að þagga niður í Sævari Atla og Sóloni hjá okkar mönnum.
Fyrri leikir: Þórsarar komu á Leiknisvöll í júní og eftir að okkar menn höfðu litið ágætlega út í byrjun var gæðamunurinn umtalsverður og kláruðu gestirnir leikinn 0-3 með nokkrum yfirburðum. Við komumst að því eftir leikinn að leikplanið þeirra var alltaf að sýna þolinmæði í byrjun og refsa Leiknisvörninni fyrir fyrstu mistök. Það gekk 100% eftir og eftirleikurinn varð næsta auðveldur. Í viðbót við þennan leik í sumar hafa Þórsarar betur í innbyrðisviðureignum í deild síðustu 10 árin. Þeir eru með 6 sigra gegn okkar 4 og 2 jafntefli. Leiknir vann Þór Ak síðasta sumarið 2016 og þá á Akureyri. Krossleggjum fingur.
Bönn og meiðsli: Hjá Leikni eru allir klárir og heilbrigðir en lykilmaðurinn á miðjunni, Ernir Bjarnason, verður í leikbanni. Það verður lykilatriði fyrir Sigga að leysa þá stöðu vel gegn skipulögðum andstæðingum.
Jónas Björgvin Sigurbergsson verður í banni hjá heimamönnum en við vitum lítið um meiðsli þeim megin.
Spáin: Til að gera usla á toppi deildarinnar verður Siggi að leggja þennan leik upp til sigurs. Jafntefli gæti spilað beint uppí hendurnar á Þórsurum sem gætu verið með pálmann í höndunum ef svo færi. Við erum að fá Sævar Atla aftur inn eftir tveggja leikja fjarveru með markmið um að skora töluvert fleiri mörk en hann er kominn með og þeir Sólon eru að mæta annarri skyttu í Montejo. Þetta gæti orðið svakaleg sýning í höfuðstað norðursins og leyfi ég mér spá því að formið okkar og leikgleðin verði ofan á í stórskemmtilegri baráttu, 2-3 fyrir Stolti Breiðholts og allt í háaloft fyrir lokasprettinn. Sævar setur tóninn, Vuk bætir í og Sólon með smiðshöggið. Takk fyrir pent.
Comments