Á morgun bruna drengirnir okkar Reykjanesbrautina til móts við það lið sem fer sterkast af stað í Lengjudelidinni þetta árið með það markmið að lækka í þeim rostann og stimpla sig sjálfir inn í toppbaráttuna.
Keflavík, með Nacho "okkar" Heras í lykilhlutverki, eru að salta andstæðinga sína og hafa byrjað með látum. Þeir sigruðu Aftureldingu 5-1 í fyrsta leik og skoruðu svo 4 mörk gegn engum í heimsókn til Ólafsvíkur. Í Bikarnum eru þeir dottnir út en það var eftir hörkuleik við Breiðablik sem tapaðist 3-2 í Kópavogi.
Það er alveg klárt að það er nóg af mörkum í þessu liði og við vitum fyrir víst að Nacho gefur engin ókeypis mörk sín megin. Hann sjálfur er kominn með 4 mörk og þau flæða frá fleirum framar á vellinum.
Þetta er leikurinn í fyrra sem okkar menn sigruðu í leiðindarigningu daginn eftir að Siggi tók einn við stjórnartaumunum. Þá voru Keflvíkingar í stökustu vandræðum með lið sitt og okkar menn sýndu að þeir voru klárir að flykkja sér bakvið nýjan aðalþjálfara.
Það verður líklega töluvert erfiðara að stela öllum stigunum annað kvöld. Heimamenn eru að tjalda öllu til og eins og áður segir og byrja með látum. Okkar menn byrjuðu vel en strax eru komnar efasemdir innan okkar raða um það hvort bjartsýnin hafi verið óverðskulduð varðandi möguleika okkar á að horfa á Pepsi-Max fótbolta næsta sumar í 111. Það er þó víst að þessi leikur mun gefa okkur fjandi góða vísbendingu um það hvar við stöndum. Ef Keflvíkingar flengja okkur eins og þeir hafa gert við fyrstu tvo andstæðinga sína í deildinni, þá er róðurinn strax orðinn nokkuð þungur hjá okkar mönnum. Ef þetta verður sterkt jafntefli, þá er líklegt að okkar menn þurfi að sýna mikið stál til að landa því. Ef okkar menn löðrunga Keflvíkinga með sigri, þá er bjartsýnisvagninn kominn með fullan tank af eldsneyti og allt brjálað í Breiðholtinu um helgina.
Í liði Leiknis er Máni kominn aftur eftir að hafa þurft að yfirgefa völlinn í hálleik gegn Vestra. Ósvald er líklegur til að byrja á bekknum eftir meiðsli en enn er allavega vika í Hjalta. Annars eru allir aðrir klárir og merkilegt nokk, bönn ekki farin að bíta ennþá.
Við hvetjum að sjálfsögðu sem allra flesta í samflot til Sunny KEF annað kvöld að styðja strákana til hetjudáða. Það veitir ekki af.
コメント