Nýji meistaraflokksþjálfarinn okkar, Stefán Gíslason, heiðraði Halldór og Árna Súperman með nærveru sinni í allra fyrsta hlaðvarpi Leiknismanna. Hann lét gamminn geysa um útlitið framundan, sínar áherslur í þjálfun og meira að segja markið fræga sem hann skoraði fyrir Bröndby á sínum tíma.
Stefán Gíslason mætti í fyrsta Ljónavarpið og gaf sér góðan tíma í spjall með strákunum. Kunnum við honum miklar þakkir fyrir. Ekki er hægt að skrifa upp allt spjallið svo við mælum með að þú hlaðir varpinu niður og leggir við hlustir en hér er stiklað á stóru af því sem kemur fram í þættinum.
Karatemarkið fræga var ofarlega á dagskrá og Stefán var auðmjúkur þegar hann viðurkenndi að mörkin hafi kannski ekki verið mörg en neitaði ekki að hann væri stoltur af þessu marki. Hann lofaði engu um að þetta yrði æft sérstaklega á Leiknisvelli fyrir sumarið. Við skulum ekkert draga það mikið lengur að sýna ykkur markið hér:
Stefán byrjaði þjálfaramenntun- og störf sín þegar hann kom úr atvinnumennsku til Breiðabliks. Hann tjáði Ljónunum þó að hann hafi fundið snemma að þrátt fyrir að hann næði til leikmanna yngri flokka þá ætti meistaraflokksboltinn best við hann.
"Eitt af því sem ég hreifst af með Leikni er bara að þetta er vel rekinn klúbbur"
Aðspurður af hverju hann slóst í raðir Leiknis sagðist Stefán spenntur fyrir stemningunni í þessu litla samfélagi í Breiðholti (No pressure!) eftir stopp félagsins í Pepsídeild um árið og eftir spjall við Helga framkvæmdastjóra þá hafi hann verið orðinn vel spenntur fyrir að takast á við þessa áskorun.
En á hvaða forsendum er Stefán ráðinn? Fær hann að ráða öllu í leikmannamálum? Er hann með óútfylltan tékka til að gera það sem honum sýnist eða hvernig liggur landið fyrir núna?: "Eitt af því sem ég hreifst af með Leikni er bara að þetta er vel rekinn klúbbur og það er skynsemi á bakvið allar ákvarðanir sem eru teknar og það er jákvætt og hollt fyrir klúbbinn að það sé rekið eins og það er. Ég er líka fullmeðvitaður um að við erum í 1. deildinni á Íslandi og þetta er ekkert auðveldur rekstur. Ég var mjög ánægður með að það var komið hreint fram með það hvernig klúbburinn er rekinn".
"Við erum með eldri hreinræktaða Leiknismenn þarna inni í klefa sem eru frábærar fyrirmyndir".
Stefán hélt áfram og talaði um að leikmannahópurinn hafi verið lítill þegar hann tók við og öllum væri ljóst að hann þyrfti að styrkjast fyrir átökin sem framundan eru. Hann tjáði Ljónunum þó að hann væri mjög ánægður með hversu sterkur og góður kjarni hópsins er sem fyrir er: "Þetta er góð blanda. Við erum með eldri hreinræktaða Leiknismenn þarna inni í klefa sem eru frábærar fyrirmyndir. Þetta eru professional leikmenn hvernig þeir mæta á æfingar, hvernig þeir hugsa um sig og gera hlutina. Svo erum við í bland við það með spennandi unga stráka í þessum hóp. Svo er þetta spurning um að breikka hópinn og fá einhverjar styrkingar inn. Ég hef með það að segja þó ég hafi ekkert einræði með það. Þetta þarf að vera gert af skynsemi og rétt".
Leiknisljónin spurðu að því hvort Tómas Óli væri alveg pottþétt hættur knattspyrnuiðkun eða gætum við búist við honum í búningi Leiknis í sumar? "Mér skilst að hann sé hættur. Eins og ég sé þessa hluti og þegar við erum að skoða leikmenn að þá spyr ég ekki tvisvar. Ég vil fá leikmenn inn í þennan hóp sem virkilega vilja koma. Að suða í mönnum og lokka þá með loforðum sem ekki er hægt að standa við þýðir að menn séu að kannski ekki að koma á réttum forsendum. Hópurinn er sterkur, klefinn er rosalega sterkur. Við erum með stráka hérna sem virkilega vilja vera hérna vilja gera vel fyrir klúbbinn og mér finnst bara rosalega mikilvægt að þeir leikmenn sem koma inn í þennan hóp að þeir passi inn í hópinn fyrst og fremst. Ég horfi rosalega mikið í það. Tómas Óli var hjá Breiðablik þegar ég var þar og hann er bara frábær knattspyrnumaður með mikla hæfileika en hvað hann er að hugsa í dag veit ég ekki. Ég er allavega ekki að ganga á eftir honum. Hvort sem það er rétt eða rangt."
Þá lá beinast við að spyrja Stefán út í innkomu leikmanns sem virðist vera að taka skóna aftur fram fyrir þetta verkefni. Ingólfur Sigurðsson var hættur en er kominn í raðir Leiknis núna: "Jú, Ingólfur var ekki með snöruna úti um allan bæ en þegar við heyrðum í honum var hann bara spenntur fyrir þessu strax og það gekk hratt og vel fyrir sig. Hann er einmitt strákur sem vildi koma og koma á réttum forsendum. Það sama má segja um Girði sem er kominn hérna líka. Logi Ólafs hafði samband við mig og spurði hvort við vildum kíkja á þennan strák og þetta er strákur sem er alinn upp hjá KR og er búinn að vera fyrirliði þar upp allt starfið svo það er strákur sem hefði getað skoðað hitt og þetta en hann kom til okkar, leist vel á okkur, okkur leist vel á hann og var gengið frá því mjög fljótt. Mér finnst þetta skipta svo miklu máli."
En hvernig er leikstíll nýja þjálfarans? Hvernig vill hann stilla upp liðum sínum? "Eitt af því sem ég lærði fljótlega þegar ég var með Haukana er að þegar við erum að spila hérna á Íslandi, þá er ég með ákveðnar hugmyndir um hvernig ég vil spila fótbolta og við getum farið að tala um taktík og kerfi og allt það en maður þarf svolítið að stilla það af útfrá þeim leikmannahóp sem maður hefur. Þegar ég byrjaði með Haukana ætlaði ég bara að spila 4-4-2 með tvo uppi og tvær flatar línur og það er bara kerfi sem ég hafði trú á og hafði mikið spilað sjálfur í Noregi. En fljótlega kom í ljós að ég var ekkert endilega með hópinn sem það kerfi hentaði og þá förum við ekkert bara og náum í þá leikmenn. Það er ein af þeim mistökum sem ég gerði með Haukana. Því tók ég við hér hjá Leikni með miklu opnari hug hvað þetta varðar. Kynnast hópnum, kynnast leikmönnum. Oft getur maður séð leikmann leysa fleiri en eina eða tvær stöður. Þetta er ekkert svakalega stór markaður hér heima með leikmenn svo það er svoldið mikilvægt að skoða þetta uppá að styrkja hópinn. Hvernig náum við sem mestu út úr öllum leikmönnum?"
"Markmiðið er að vera fram á haustdaga í efri hlutanum alltaf og missa það ekkert framúr okkur á neinum punkti"
En hvað eru margir leikmenn í viðbót á leiðinni til félagsins fyrir sumarið? "Þegar ég kem er talað um að séum með budget fyrir tvær styrkingar í liðið. Þá er átt við tvo sterka leikmenn sem ættu að geta styrkt fyrstu ellefu. Þannig að ég sé fyrir mér að við séum að fá svona þrjá til fjóra. Það er svona planið".
En hefur Stefán sett einhver ákveðin markmið fyrir sumarið? "Að sjálfsögðu hef ég sett mér markmið og það verður maður alltaf að vera með. Ég er í þessu til að vinna leiki og það er númer eitt, tvö og þrjú, að safna stigum og markmið mitt og félagsins er að vera í efri hluta deildarinnar. Markmiðið er að vera fram á haustdaga í efri hlutanum alltaf og missa það ekkert framúr okkur á neinum punkti. Það er mikilvægt að við séum alltaf lið sem er erfitt að mæta og gefum öllum leik."
En er Stefán sáttur við hvar hann er með liðið á þessum tímapunkti undirbúningstímabilsins? "Ef við ætlum að dæma útfrá úrslitunum væri þetta alls ekki gott. En það sem ég er ánægður með er að við höfum verið þokkalega stabílir. Við erum ekki að eiga einhvern frábæran leik og svo einhvern hörmungarleik. Við höfum verið stabílir og gefið öllum leik. við höfum mikið verið að spila vil Pepsideildarlið í vetur. Stöðugleikinn hefur verið fínn í vetur. Við erum að vinna eftir ákveðnu plani svo framan af vetri höfum við ekki verið að hugsa mikið um úrslitin. Eftir því sem nær dregur móti förum við í að fínpússa hlutina. Þá vill maður fara að sjá ákveðinn stíganda í þeim hlutum".
Hvað er langtímamarkmiðið hjá þér og félaginu? "Það er náttúrulega markmið mér og hjá klúbbnum að koma félaginu uppí Pepsi. Ef það væri ekki markmið hérna þá veit ég ekki við erum að gera hérna. Svo þarf bara að vinna og hvort það sé eitt, tvö eða þrjú ár þarf að horfa raunhæft á þetta. Eins og staðan er núna með stærð á hóp og svoleiðis er kannski ekki raunhæft að segja að við séum að fara upp í sumar. En það er hægt að segja að kannski eftir eitt ár eða svo sé hægt að segja að það sé raunhæft markmið."
Það er hægt að segja með sanni að við Leiknisljónin berum nýja stjóranum góða sögunni eftir þetta góða spjall og það er kominn nettur fiðringur fyrir Inkasso-ástríðunni núþegar.
Comentários