top of page
Writer's pictureLjón

Ljónavarpið #010: Uppgjör fyrri helmings Inkasso-deildarinnar með Elvari Geir

Elvar Geir Magnússon, stjórnarmaður í Leikni og einn af lykilmönnunum hjá fotbolti.net, settist með Halldóri og Snorra eftir 11. leikinn og horfu þeir yfir farinn völl hingað til í sumar og spáðu í spilin fyrir restina af tímabilinu í Ljónavarpi #010.


 

Það er flóð hlaðvarpa sem skolast yfir Leiknisfólk um þessar mundir nú þegar tímabilið er hálfnað og mikilvægur leikur gegn Aftureldingu framundan. Rífið þetta í ykkur og eins og vanalega, rífið okkur í ykkur ef þið eruð innilega ósammála umræðunni.


Það hefur gengið á ýmsu hjá Leikni á fyrri helmingi tímabilsins og því ærin ástæða til að staldra aðeins við og rýna í það sem er búið og gert.


Besti Leikmaðurinn: Sævar Atli

Það voru skiptar skoðanir með hver ætti þetta og valið var ekki einróma en Instagram-kosningin var nokkuð ótvíræð og það voru allir sammála um að strákurinn sé búinn að vera mjög sterkur í fyrri hlutanum. Sólon fékk líka props fyrir markaógnina og að vera markahæstur og Ernir Bjarna fyrir að keyra sig inn í plön þjálfaranna og vera jafnvægið sem oft vantar á miðjuna. Ásamt því að allir eru spenntir að sjá Vuk halda áfram að dafna í liðinu.


Mest spennandi Leikmaðurinn: Gyrðir Hrafn

Að öllum uppöldum vonarstjörnum ógleymdum eru strákarnir spenntir fyrir að sjá Gyrði halda áfram að vaxa sem skrokkurinn á vellinum, hvort sem er sem djúpur miðjumaður eða miðvörður. Hann virðist líka vera að poppa upp reglulega í marktækifærum. Danni Finns fær líka klapp fyrir að vera að koma betur og betur inn í plön liðsins og standa fyrir sínu þrátt fyrir að vera ekki alltaf fremstur í goggunarröðinni.

Besti Leikurinn: Víkingur Ólafsvík 2-0

Eini hreini skjöldurinn og leikurinn þar sem okkar menn spiluðu eins og þeir sem hafa völdin. Rigningarsigurinn í Keflavík eftir þjálfaraskiptin kom líka sterkur inn en flottasti og öruggasti sigurinn var tvímælalaust þegar Ólsarar komu í heimsókn. Grótta á Vivaldi-velli fékk líka klapp á bakið, sérstaklega þar sem það er síðasti leikurinn sem það sterka lið tapaði á heimavelli.


Besti Borgarinn: Þróttur! Le Kock 130gr djúsí börger í veitingatjaldi er ekki hægt að skáka. Skammir fá Framarar fyrir að lofa engum osti á borgarana fyrr en þeir fara í Pepsi. 5 ára bið eftir osti er ekki í lagi. Enn meiri skammir fá Haukar fyrir að manna ekki einu sinni grillið þegar hungruð ljón sækja þá heim.


Mestu Vonbrigðin: Ingó Sig. Allir sammála um að það sé enginn búinn að vera virkilega lélegur eða einhver innan hópsins sé ekki að gefa sig allan í verkefnið en meiðsli og óheppni í byrjun móts hefur sett strik í reikninginn hjá honum Ingó okkar og í ofanálag kannski allt of miklar væntingar. Vonandi nær hann sér örugglega af þessum þrálátu meiðslum og nær að keyra sig í gang á seinni hlutanum. Hann á nóg inni þegar það verður.


Stemningin í stúkunni í Ghettóinu: Ekki nægilega góð. Engin tölfræði sem segir að heimavöllurinn sé að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir úrslitin og er það bagalegt. Það er yfirleitt meiri stemning í hópi Leiknisfólks þegar það situr saman á útivöllum víðsvegar um borg og land. Þetta þarf að rýna betur í og bæta úr.


Skemmtilegasti útvöllurinn: Ólafsvík. Þó að við eigum heimsókn á Snæfellsnesið enn inni er erfitt að horfa framhjá fegurðinni í Ólafsvík og saga liðsins þaðan er svolítið samtvinnuð við Leikni og því auðvelt að þykja vænt um heimsóknir þangað. Grenivík fékk líka gott klapp á bakið enda gullfallegt svæði þegar vel viðrar. Það er um að gera að taka laugardagsbíltúrinn þangað um næstu helgi því það er langt frá því gefið að Magni verði inni í ferðaplönum okkar Leiknismanna næsta sumar.


Ömurlegasti útivöllurinn: Ásvellir (Haukar). Einróma álit allra Leiknismanna og EKKERT þar til eftirbreytni. Nuff said!


Skelltu þér endilega á þína uppáhaldshlaðvarpsveitu og nældu þér í þáttinn í heild sinni. Nú eða hlustaðu bara hér.


30 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page